Leggur til hækkun veiðigjalda um 2,5 milljarða

Deila:

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra, hefur lagt fram frumvarp til laga um breytingar á núgildandi lögum um veiðigjöld. Verði frumvarpið samþykkt óbreytt mun það auka tekjur ríkisins af veiðigjöldum um 2,3 milljarða á næsta ári. Meginbreytingin er lækkun á leyfilegum afskriftum skipa og búnaðar, sem mun þá dreifast á fleiri ár en nú er.

Í frumvarpinu er lagt til að gerð verði breyting á 5. gr. laga nr. 145/2018 á þann veg að í stað 4. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna komi þrír nýir málsliðir. Þar er kveðið á um að fyrningar umfram 20% dragist frá veiðigjaldsstofni í fimm jafnháum fjárhæðum á næstu fimm árum sem á eftir koma. Slík dreifing fyrninga mun aðeins eiga sér stað þegar aukafyrningar nema að minnsta kosti 200 millj. kr.
Dæmi um hvernig þetta myndi virka:
1.      Skip fyrnt 20% almennri fyrningu en jafnframt um 1 milljarð kr. í aukafyrningu. Þá kæmi öll almenna fyrningin inn í útreikning á veiðigjaldi að viðbættum 200 millj. kr. Eftir stæðu 800 millj. kr. og sú fjárhæð dreifðist á fimm ár – 160 millj. kr. á ári að viðbættum öðrum skattalegum fyrningum – sem yrði þá einnig fjárhæð vaxtagjalda.
2.      Skip fyrnt 20% almennri fyrningu en jafnframt 100 millj. kr. í aukafyrningu. Þá væru engar breytingar gerðar.
Reiknistofn veiðigjalds miðast við nytjastofn og er krónur á hvert kíló landaðs afla, reiknistofninn er fundinn með því að deila reiknuðum heildarhagnaði nytjastofns með aflamagni sama tímabils og hagnýtt var við ákvörðun heildarframlegðar fyrir hverja fisktegund. Til skattalegra fyrninga við útreikning hagnaðar teljast allar fyrningar, bæði almennar fyrningar og aukafyrningar, m.a. samkvæmt bráðabirgðaákvæði LXX.
Með breytingunni er verið að draga úr sveiflum sem hafa verið vegna hárra fyrninga á tilteknum tímabilum. Þetta er í samræmi við markmið laga nr. 145/2018 sem voru m.a. að auka stöðugleika í ákvörðun veiðigjalds. Breytingar nú eru til þess fallnar að tryggja betur að slíkum markmiðum verði náð.

Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Í 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar segir annars vegar að engan skatt megi leggja á né breyta né af taka nema með lögum og hins vegar að skattamálum skuli skipað með lögum. Ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Þá verði enginn skattur lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu. Lög um ákvörðun og álagningu veiðigjalds verða að uppfylla framangreindar kröfur stjórnarskrár um álagningu skatta.
Að undangenginni athugun þá er það skoðun ráðuneytisins að lagabreytingin brjóti ekki gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar. Breytingin snýr að því að jafna út sveiflur við útreikning á veiðigjaldi og felur ekki í sér hærri skattaálögur.

Samráð.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við fjármála- og efnahagsráðuneytið, Skattinn, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Landssamband smábátaeigenda (LS). Aðilar eru sammála um að skattalegar aukafyrningar hafi skapað meiri sveiflur í reiknistofni veiðigjalds á milli ára og að slíkar sveiflur, sem rekja má til fyrninga fárra skipa, séu óheppilegar.
Frumvarpið á sér stuttan aðdraganda og ekki gafst tími til frekara samráðs. Í september sl. óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá Skattinum um áætlað veiðigjald á árinu 2023, og einkum hvort bráðabirgðaákvæði tekjuskattslaga um heimildir til flýtifyrninga til að hvetja til fjárfestinga á tímum Covid-19 hefðu veruleg áhrif á veiðigjald til lækkunar. Í ljós kom að aukafyrningar, bæði vegna bráðabirgðaákvæðisins og fyrningarheimildar vegna söluhagnaðar eigna, lækkuðu veiðigjald, að öðru óbreyttu, um 2,5–3 milljarða kr. á næsta ári og yrði til að mynda veiðigjald á uppsjávartegundirnar loðnu, síld, makríl og kolmunna afar lágt. Lækkunin yrði þó ekki varanleg, heldur tilfærsla í tíma.

Mat á áhrifum.
    Samanlögð áhrif breytinganna eru áætluð 2,5 milljarðar kr. til hækkunar á greiðslum á veiðigjaldi ársins 2023. Þar af nemur sameiginlegt veiðigjald uppsjávartegundanna loðnu, síldar, makríls og kolmunna 2,3 milljörðum kr. í stað 0,7 milljarða kr. að óbreyttu. Veiðigjald næstu ára verður hærra en áætlað var vegna þaksins en lægra árin þar á eftir, verði ekki gerðar frekari breytingar á lögum um veiðigjald, þar sem fyrningar sem að óbreyttu kæmu að fullu til frádráttar rekstrarkostnaði einstakra fyrirtækja næstu eitt til tvö árin dreifast yfir á fleiri ár og verða í gangi í allt að fimm ár. Hafa þarf í huga að áætlanir um afla geta breyst og að gögn um afkomu einstakra fyrirtækja í sjávarútvegi vantar enn í gagnasafnið.
Að óbreyttum lögum er áætlað að veiðigjald ársins 2023 verði 7 milljarðar kr. Nái breytingin fram að ganga er áætlað að veiðigjald ársins nemi um 9,5 milljörðum kr. Til samanburðar var áætlað veiðigjald samkvæmt forsendum fjárlaga fyrir árið 2023 8,3 milljarðar kr.
Með 1. gr. frumvarpsins er lagt til að í stað 4. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna komi þrír nýir málsliðir: Til fasts kostnaðar við fiskveiðar teljast skattalegar fyrningar skipa og skipsbúnaðar. Séu skattalegar fyrningar samtals hærri en 20% af fyrningargrunni að viðbættum 200 millj. kr. skal ríkisskattstjóri dreifa því sem umfram er á næstu fimm ár. Áætluð vaxtagjöld skulu nema sömu fjárhæð og þær fyrningar sem lagðar eru til grundvallar útreikningi á veiðigjaldi á ári hverju. Til skattalegra fyrninga samkvæmt ákvæðinu teljast allar fyrningar, bæði almennar fyrningar og aukafyrningar.
 Jafna sveiflur

Markmið með breytingunni er að jafna sveiflur í útreikningi veiðigjalds sem hafa verið miklar á undanförnum árum. Með frumvarpinu er ekki verið að fella brott úr reiknistofni veiðigjalds fyrningar, hvorki almennar fyrningar né aukafyrningar. Breytingin felur í sér að sveiflur í veiðigjaldi eru jafnaðar út með því að dreifa fyrningunum á fleiri ár. Einungis er verið að setja þak á fyrningar einstakra aðila fyrir hvert ár en það sem út af stendur er flutt yfir á næsta ár og heimilt að taka það með fyrningum þess árs, þ.e. dreifa fyrningunum á fimm ár. Með þessu tapast engar fyrningar heldur koma til frádráttar á lengra tímabili. Þetta er meira í samræmi við markmið laga nr. 145/2018. Einnig leiðir þetta til meiri stöðugleika í innheimtu á veiðigjaldi af nytjastofnum og betra samræmis við raunverulega afkomu útgerðanna. Um tilefni og nauðsyn ákvæðisins vísast að öðru leyti til 2. kafla hér að framan.

Deila: