Nýr Bárður sjósettur

Deila:

„Búið að ákveða sjósetningu á nýjum Bárði í dag sjötta júní. Síðan taka við einhverjar prufukeyrslur og svo á eftir að setja í hann svolítinn búnað. Ég á því von á því að allt verði klárt í júlíbyrjun. Þetta er bátur sem er skráður rétt innan við 24 metra langur og 7 metrar á breidd. Þetta er ansi mikil breyting fyrir mann. Það stóð reyndar ekki til að hafa hann alveg svona stóran fyrst þegar maður var að spá í þetta. Svo vill þetta togast og teygjast þegar maður fer að skoða þetta betur.  Þá var ákveðið að fara að 24 metra markinu og útbúa hann fyrir dragnót líka.“

Þetta segir Pétur Pétursson, útgerðarmaður Bárðar SH. Hann tekur við nýjum miklu stærri bát í sumar og segir ýmsa möguleika opnast við það.

Pétur Pétursson um borði í Bárði SH. Hann er stór smábátur. Sá nýi verður enginn smá bátur.

Mikil breyting

Þetta verður mikil breyting fyrir okkur því við höfum bara verið nær eingöngu á netum árum saman. Nú fáum við möguleika á því að fara á snurvoðina líka. Við erum í aflamarkskerfinu gamla og höfum alltaf verið þar.“ En hverjar eru heimildirnar, er nægur kvóti? „Nei, nei, ekki næstum nógur. Ætli við séum ekki  með um 900 tonna heimildir í þorskígildum. Það er langmest þorskur.“

Þetta er mikil stækkun, en gamli Bárður er 30 brúttótonn að stærð. „Það er ansi spennandi að fara út í þetta. Mikil fiskigengd hefur verið við Snæfellsnesið undan farin ár. Maður hefur því oft þurft að fara tvær ferðir á dag og báturinn fullur af fiski og netum. Því hefur plássið verið lítið og erfitt að vera alltaf svona hlaðinn og landa tvisvar á dag. Það lengir daginn ansi mikið þó stutt sé á miðin. Aldrei minna en þrjá til fjóra klukkutíma,“ segir Pétur.

„Við erum að setja 16 til 18 tonn í körum í bátinn, en höfum mest verið að landa úr honum svona 20 tonnum. Í nýja bátnum verður hægt að vera með kör fyrir 55 tonn. Allt miklu stærra og allt öðru vísi og betra. Þetta verður nýr heimur fyrir mann.“

Hefur líkað vel við plastbátana

Grunnhugmyndin að hönnum bátsins er frá Pétri komin. „Við höfðum samband við þessa skipasmíðastöð þarna úti í Danmörku, Bredgaard Boats. Ég var með ákveðnar hugmyndir að þessu öllu saman og kynnti þeim þær. Þeir voru svo með bátahönnuð þarna úti sem teiknaði bátinn upp. Þetta eru hugmyndir sem þekktar eru úr bátum hérna heima en stillt upp eftir mínu höfði. Eini munurinn á þessum bát og öðrum bátum af svipaðri stærð er að hann er úr trefjaplasti en ekki stáli. Mér hefur líkað vel við þessa plastbáta sem ég hef átt. Þeir hafa reynst vel og því ákvað ég að halda mig við plastið, enda hefur það marga kosti umfram stálið.  Það á svo eftir að koma í ljós hvernig svona stór plastbátur virkar. Hvort það var rétt ákvörðun að velja plast frekar en stál, en ég hef fulla trú á plastinu.“

Aflhlutir með umboðið

Aflhlutir eru umboðsmenn fyrir skipasmíðastöðina hér á landi. „Ég hef átt gott samstarf við þá og tek vélbúnaðinn frá þeim, bæði aðalvél og skrúfuvélar og ljósavél og langflestan vélbúnað hjá þeim. Siglingatæki eru frá Brimrúnu, Furuno. Spilin og ankerisvindur eru frá As-Scan og krapavél frá Kælingu. Björgunarbúnaður verður frá Viking.

Við höfum leigt til okkar svolítið af kvóta og svo er ég með heimildir í litla kerfinu, sem ég hef getað skipt á. Við höfum einnig verið í góðu samstarfi við Þórsnes inni í Stykkishólmi. Höfum landað hjá þeim á vertíðinni og fengið heimildir hjá þeim á móti. Við höfum verið að taka um 1.500 til 1.600 tonn upp úr sjó á ári undanfarin ár. Það er aldrei að vita hvort það verður ekki eitthvað meira á nýja bátnum. Maður reynir alltaf að stefna fram á við, en með stærra skipi gerir maður sér þetta aðeins auðveldara og eiga möguleika á því að veiða aðrar tegundir en nánast eingöngu þorsk. Bæði kola og ýsu og auka þannig fjölbreytnina í útgerðinni.“

Núverandi Bárður utan við Arnarstapa. Spurning hvort sá nýi kemst þar inn.

Róa frá Ólafsvík og Arnarstapa

Þeir nær eingöngu verið að róa frá Ólafsvík og Arnarstapa eftir því hvort hann blæs að norðan eða sunnan. „Maður er alltaf að leita að landvari á þessum minni bátum.  Það er alltaf best að vera í skjólinu hvort sem maður er stór eða lítill.“ Höfnin á Arnarstap er nokkuð þröng og Pétur segir að erfitt verði að komast þar inn á nýja bátnum nema við bestu aðstæður. Reyndar standi til að dýpka höfnina þar, þannig að báturinn muni fljóta þar inn, en það þurfi að vera stillt og gott til að það gangi. Vissulega væri gaman að koma með hann á Arnarstapa

Deila: