Tómas Þorvaldsson á ný í flota Þorbjarnar hf.

Deila:

Þorbjörn hf. í Grindavík er um þessar mundir að taka við frystitogara, sem keyptur er frá Grænlandi. Togarinn er upphaflega smíðaður fyrir Skagstrending og hét Arnar HU 1. Hann var fljótlega seldur til Royal Greenland og fékk þá nafnið Sisimiut. Hjá Þorbirni fær hann nafnið Tómas Þorvaldsson GK 10 eftir stofnanda fyrirtækisins.

Einn fjögurra línubáta fyrirtækisins var úreltur á síðasta ári og verður þá skipaflotinn þrír línubátar og þrír frystitogarar. Línubátarnir sjá vinnslum fyrirtækisins í landi fyrir hráefni áfram, sem er vinnsla á saltfiski og ferskum fiski.

Eiríkur Dagbjartsson er útgerðarstjóri frystiskipa Þorbjarnar. Hann segir að Skagstrendingur hafi fengið þetta skip í lok árs 1992. Hann hafi þótt mjög fullkominn á sínum tíma. „Það voru í honum nýungar eins til dæmis sjálfvirkir frystar, sem er gríðarlega vinnusparandi og það var gert ráð fyrir beinamjölsverksmiðju í honum, sem reyndar var aldrei sett niður. Hann var mjög stór á þeirri tíma mælikvarða, sérstaklega á breiddina. 14 metra breiður.

Togarinn hét upphaflega Arnar HU 1 og var smíðaður fyrir Skagstrending. Hann var síðan seldur til Grænlands og var þar í mörg ár, en er nú kominn heim til Íslands á ný.
Ljósmynd Þorgeir Baldursson.

Mikið verið endurnýjað á undanförnum árum

Þeir seldu hann síðan um haustið 1995 til Royal Greenland og í einhverjum tilfellum eru Færeyingar sem sóttu hann til Skagastrandar enn um borð, allavega annar skipstjórinn. Royal Greenland hefur haldið þessu skipi mjög vel við. Þeir hafa gert miklar endurbætur á honum á undanförnum árum. Þeir breyttu til dæmis frystikerfinu úr freoni yfir í ammoníak fyrir nokkrum árum. Þá endurnýjuðu þeir að öllu leyti allt sem tengdist frystingu, svo sem öll rör, frystitæki, bæði þessi sjálfvirku og tvo aðra lárétta frysta. Þeir skiptu um skrúfublöð og skrúfuhring fyrir fimm árum. Þeir settu svo þriðju togvinduna í hann 2002 til að geta dregið tvö troll samtímis og það virkar mjög vel. Nýlega er búið að taka borðsalinn og alla þá hæð í gegn annað en áhafnarklefa en nánast allir klefar eru eins manns. Tvær setustofur og eldhús og kæli og frysti fyrir matvæli. Það hefur því mjög margt verið gert mjög vel í honum á undanförnum árum.

Þeir eru með tárin í augunum Grænlendingarnir og Færeyingarnir sem hafa verið á honum. Sjá mikið eftir honum. Þetta er virkilega gott skip, þægilegur í sjó að leggja. Ég var um borð í honum í fjóra til fimm daga í vetur einhverjar 180 sjómílur norður af Noregi. Þó ekki hafi verið nein drullubræla var þarna kaldafýla og þá fann maður hvað þetta er ótrúlega gott sjóskip,“ segir Eiríkur.

Togarinn kom inn til Hafnarfjarðar síðastliðinn laugardag til löndunar og fer svo í söluslipp þar sem hann verður yfirfarinn, en Þorbjörn tekur ekki við honum fyrr en snemma í júní. Reyndar verður tækifærið notað til að botnmála, sínka og merkja hann.

Eiríkur segir að ekkert stórt verði gert í honum annað en að skipta út flökunarvélum. Settar verði flökunar vélar um borð sem gefi betri nýtingu en þeir hafi notað. Þá verði aðeins græjað á millidekki og til dæmis sett upp tæki til að hirða og vinna afskurð sem skylda sé að hirða. Að öðru leyti sé hann tilbúinn á veiðar enda keyptur með öllum veiðarfærum. Það sé nánast hægt að sleppa og fara.

Vel græjaður frystitogari

Eiríkur segir að Tómas Þorvaldsson verði mjög vel græjaður sem frystitogari. Til dæmis séu í honum tveir flokkarar frá Marel, þrír hausarar, þrjár flökunarvélar, sem sé nýtt fyrir þá. Þá sé heilmikil sjálfvirkni í vinnslunni eins sjálfvirku frystarnir og í pökkuninni líka.. Þar sé sjálfvirkur úrsláttur, en þar hafi mesta puðið verið í frystitogurunum, að vera að bera þungar pönnur og berja úr þeim. „Meira að segja sér kerfið um að flokka öskjurnar í rétt númer og kerfið sér um að para saman réttar öskjur, þrjár og þrjár saman í hvert hólf. Þegar komnar eru þrjár öskjur í hvert hólf. Sér kerfið um að koma með öskjurnar eftir færibandi að eina manninum, sem vinnur við úrslátt og pökkun. Hann er þá bara með merktan kassa tilbúinn og öskjurnar keyra beint inn í kassann. Hann lokar svo kassanum og sendir hann í bindingu og þaðan niður í lest.

Svo höfum við aðeins verið að skoða möguleikana á að setja  í hann mjöl- og lýsisverksmiðju með Héðni og skipatæknifræðingi. Hvort það væri mögulegt og hagkvæmt og við erum nú í þeirri vinnu. Engar ákvarðanir hafa verið teknar enn um sinn, en verð á mjöli og lýsi er gott og það væri mjög jákætt að geta nýtt alveg 100% það sem kemur um borð,“ segir Eiríkur.

Tómas Þorvaldsson fer á hefðbundnar veiðar á botnfiski í sumar. Hann fer ekki á makríl eins og hinir tveir frystitogararnir Hrafn Sveinbjarnarson og Gnúpur.

Tilfærslur á áhöfnum

Nokkrar sviptingar verða í skipan áhafna við komu nýja togarans. Skipstjórar verða Sigurður Jónsson, sem var annar skipstjórinn á Hrafni Sveinbjarnar og Bergþór Gunnlausson, sem var annar skipstjórinn á Gnúpi. Þeir taka með sér áhafnir sína og yfirvélstjórar verða Björn Oddgeirsson og Árni Jón Gissurarson. Hin áhöfnin á Gnúpi fer yfir á Hrafn Sveinbjarnar og ný áhöfn hefur verið ráðin á Gnúpinn og hefur hún hafið störf. „Þar tók við skipsstjórn enginn annar en Grétar nokkur Kristjánsson, sem var hættur fyrir aldurs sakir fyrir einu og hálfu ári, en er kominn tvíefldur til baka 73 ára og reykspólar af gleði, hamingju og dugnaði. Hann var með Gylli í gamladaga,“ segir Eiríkur.

Deila: