Sér samfélagsbreytingarnar út um gluggann sinn

Deila:

Víkingur Gunnarsson framkvæmdastjóri Arnarlax á Bíldudal segir að samfélagslegu áhrifin af laxeldinu séu nú þegar orðin talsverð á sunnanverðum Vestfjörðum. 110 starfsmenn vinna hjá Arnarlaxi á Bíldudal, Tálknafirði og Patreksfirði. Þetta kemur fram í viðtali við Víking í Fréttatímanum sl. laugardag, 21. janúar.

Fjölgun íbúa, hærra húsnæðisverð, auknar tekjur sveitarfélaga

Hann segist ekki þurfa að gera annað en að líta út um gluggann á skrifstofunni sinni. „Á þessum stöðum þar sem er fiskeldi í gangi, bæði í þorpum hér á Íslandi og annars staðar, er fjölgin á barnafólki, það er fjölgun í barnaskólunum og svo framvegis. Á Bíldudal og Patreksfirði er þetta augljóst: Fjölgun íbúa, hærra húsnæðisverð, tekjur sveitarfélagsins hafa aukist.
Ef ég horfi hérna út um gluggann minn sé ég flutningabíla sem eru í eigu nýst fyrirtækis sem ungur maður stofnaði hér til að leyra lax úr bænum. Þetta skapar líka afleidd störf því fyrirtæki verða til sem vinna fyrir laxeldisfyrirtækin. Þetta eru bara jákvæð áhrif sem ég get séð út um gluggann. Það er verið að lesta bílana með laxi og svo verður laxinn bara keyrður burtu í kvöld“.
Víkingur segir að auk þess sé miklu meiri trú á samfélaginu á sunnanverðum Vestfjörðum en fyrir nokkrum árum. „Þetta er svæði sem búið var að afskrifa.“

Skapar kvenna og karlastörf

Aðspurður hvað honum finnst um byggðarökin fyrir mikilvægi laxeldis segir hann að á endanum snúist þetta bara um það hvort laxeldið gangi vel eða ekki, en ekki hvar það sé stundað.
„Ég held að við þurfum aðeins að taka umræðuna um laxeldið á vitrænt stig. Það gengur vel að reka þessi fyrirtæki; fjárfestar eru ekki að leggja peninga í laxeldið út af byggðasjónarmiðum og til að hafa atvinnu úti á landi. Þetta skapar störf, þetta skapar fjölbreytt störf og þetta skapar störf sem krefjast alls kyns menntunr. Og er eitt í þessu sem er afar skemmtilegt: Þetta skapar bæði karla og kvennastörf“.
Aðspurður um hvað hann telji raunhæft að hægt sé að framleiða mikið af laxi á Íslandi segist hann ekki við hæfi að nefna tölur. „Ég vil ekkert vera að blása það út sem hægt er að gera í laxeldi á Íslandi. Það er fullt af leyfum sem verið er að sækja um en það er ekki víst að það verði allt að veruleika. Hafrannsóknarstofnun á eftir að greina burðarþol fjarða og það þarf að vinna þetta með eftirlitsstofnunum“.
Arnarlax stefnir á 30 til 40 þúsund tonna framleiðslu á eldislaxi, þar með 10 úsund tonn í Ísafjarðardjúpi sem og framleiðsluaukningu í Arnarfirði og á sunnanverðum Vestfjörðum.

Deila: