Verðlækkun dregur úr aflaverðmæti

Deila:

Í október 2016 var aflaverðmæti íslenskra skipa rétt um 11 milljarðar króna sem er samdráttur um 8% samanborið við október 2015. Verðmæti botnfiskafla nam rúmum 7,8 milljörðum og dróst saman um 16% frá fyrra ári. Uppistaðan í verðmæti botnfiskaflans var þorskur en verðmæti hans nam tæpum 5,4 milljörðum sem er tæplega hálfum milljarði minna en í október 2015. Verðmæti uppsjávarafla jókst hins vegar á milli ára, nam rúmum 2,5 milljörðum sem er 67% meira en í október 2015. Verðmæti flatfiskafla dróst saman um 40,5% og nam 520 milljónum króna í október. Aflaverðmæti skelfisks dróst saman um 50,8% og nam 114 milljónum samanborið við rúmar 231 milljónir í október 2015.

Á 12 mánaða tímabili frá nóvember 2015 til október 2016 var aflaverðmæti 137,1 milljarðar króna sem er 9,4% samdráttur miðað við sama tímabil ári fyrr. Verðmæti þorskafla stendur nokkurn veginn í stað á milli tímabila á meðan verðmæti annarra botnfisktegunda dróst saman um 6,5 milljarða. Verðmæti uppsjávartegunda dróst einnig saman á milli þessara 12 mánaða tímabila, vegur þar þyngst 7,8 milljarða samdráttur á verðmæti loðnuafla.

Athygli vekur að verðmæti fiskaflans dregst saman um 8% í október miðað við sama mánuð í fyrra, þrátt fyrir að landaður afli hafi aukist um 13%. Það skýrist að einhverju leyti af lítilsháttar samdrætti í botnfiskafla, en aflaukninguna í mánuðinum má að öllu leyti rekja til uppsjávarfisks. Það er hins vegar fiskverð sem mestu ræður, en það hefur lækkað verulega frá október 2015 til 2016. Það má glögglega sjá á því að þorskafli í október 2016 jókst um 9% miðað við sama mánuð árið áður, en þrátt fyrir magnaukninguna fellur verðmæti á sama tíma um 7,7%. Svipaða sögu er að segja af öðrum botnfisktegundum. Á heildina litið dróst botnfiskafli saman í október í fyrra um 2% en verðmætið féll um 16%.

 

 

Deila: