Viðurkenning sem segir sögu og skiptir máli
Vinnslustöðin hf. (VSV) er framarlega í hópi framúrskarandi fyrirtækja 2016 samkvæmt mælingu Creditinfo, í 35. sæti af alls 624 fyrirtækjum sem þessa viðurkenningu hlutu við athöfn á Nordicahóteli í Reykjavík í síðustu viku. Stjórnarformaðurinn segir að eigendur, stjórnendur og starfsmenn megi sannarlega vera stoltir af árangrinum.
„Auðvitað er afar ánægjulegt fyrir VSV-fólk að fá staðfestingu á því enn einu sinni að fyrirtækið er meðal þeirra sterkustu á landinu. Margir eru kallaðir en fáir útvaldir í niðurstöðum Creditinfo varðandi styrkleika alls um 36 þúsund fyrirtækja á hlutafélagaskránni. Af öllum þessum skara standast einungis 624 fyrirtæki kröfur til að geta talist framúrskarandi og þar er Vinnslustöðin 35. sæti. Við spilum því tvímælalaust í úrvalsdeildinni!“ segir Guðmundur Örn Gunnarsson, stjórnarformaður VSV, um viðurkenninguna.
„Þetta er bæði viðurkenning á því sem vel er gert og hvatning til að halda áfram á sömu braut. Við höfum fetað okkur áfram í rekstrinum markvisst, örugglega og af varfærni og fögnum árangrinum sem það skilar.
Ég vil í leiðinni óska félögum okkar hjá útgerðarfélaginu Þorbirni í Grindavík til hamingju með að hafa fengið sérstök verðlaun fyrir nýsköpun í sjávarútvegi. Þorbjörn er vel að þeirri viðurkenningu kominn og ástæða er líka til að hrósa Creditinfo fyrir að varpa ljósi á að einnig í sjávarútvegi á sér stað merkileg nýsköpunarstarfsemi.“
Myndin: Gunnar H. Egilson frá Creditinfo t.v. afhentir Guðmundi Erni Gunnarssyni, stjórnarformanni VSV, viðurkenninguna í dag.