Minnkandi hlutdeild strandveiða í þorski
Á árinu var 2011 var þorskafli strandveiðibáta 4,2% af heildarafla tegundarinnar. Þau fimm ár sem strandveiðar hafa verið stundaðar frá þeim tíma sýna að þorskafli þeirra hefur ekki fylgt aukningu sem orðið hefur á þeim tíma.
„Mismunurinn er sláandi og brýnt að lagfæringar verði gerðar. Við útreikning miðað við hlutdeild veiðanna 2011 vantar samanlagt um átta þúsund tonn upp á. Mestur hefur mismunurinn verið síðustu ár, nálægt tvöþúsund tonnum,“ segir í frétt á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda. Þar segir ennfremur:
„Brýnt er að sjávarútvegsráherra komi að þessu máli og leiðrétti. Krafa LS er skýr, að strandveiðar verði heimilaðar samfellt tímabilið maí – ágúst, 4 daga í viku. Aðrar reglur verði óbreyttar.
Við þessar aðstæður ætti ráðherra að einhenda sér í lagabreytingar þar sem strandveiðar yrðu heimilaðar samkvæmt framangreindri breytingu á komandi sumri. Að því loknu væri hægt að leggja raunhæft mat á aflaaukningu og meta árangurinn.
Á það skal bent að á engan hátt yrði hægt að segja að um óábyrgar fiskveiðar væri að ræða þar sem þorskafli sl. ár samkvæmt aflaregla hefur verið nokkuð undir 20% af viðmiðunarstofni. Mismunurinn nemur tugum þúsunda tonna.
Grafið hér að neðan sýnir aukningu sem orðið hefur á þorskafla á Íslandsmiðum og hvernig vægi strandveiðiafla hefur minnkað ár hvert frá 2011.“