Ágóði kyrrsettur til vaxtar og uppbyggingar

Deila:

Aðalfundur HB Granda hf. var haldinn föstudaginn 29. mars 2019. Á fundinum var gerð grein fyrir afkomu félagsins á síðasta ári auk annarra venjulegra aðalfundastarfa. Í erindi Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra félagsins, komu fram að möguleikar HB Granda til að vaxa og eflast væru góðir. Sagði hann að sá hluti hagnaðar félagsins sem ekki væri greiddur út til hluthafa væri „kyrrsettur ágóði“ sem nýta mætti til uppbyggingar. Lokaorðin í erindi forstjórans voru eftirfarandi:

„Styrkur HB Granda er að félagið býr yfir mikilli þekkingu og reynslu, bæði til sjós og lands – á veiðum, vinnslu. Einnig er efnahagur traustur og félagið er auk þess skráð í kauphöll og getur því með gagnsæum og skipulegum hætti leitað til markaðarins með fjármögnun á arðbærum verkefnum.
Eigið fé félagsins er traust.

Félag sem er með gott eigið fé sem kemur frá „kyrrsettum ágóða“ skiptir miklu máli í mínum huga. Þegar fyrirtæki skilar hagnaði greiðir það einn hluta hans í arð til eigenda en annar hluti hans verður eign félagsins og notaður í frekari uppbyggingu þess. Það er kyrrsettur ágóði.

Við höfum tækifæri á að vaxa af sjálfsdáðum sem oft er kallaður innri vöxtur. Við getum fjárfest í markaðssetningu sem getur hækkað okkar afurðaverð. Í dag er verð á kílói af karfa og ufsa 2 evrur og þorski 3,5 evrur. Fyrir kíló af eldislaxi fást 6 evrur í dag. Í mínum huga er villtur fiskur úr Atlandshafi góð afurð og ég er sannfærður um að hægt sé að hækka verðmæti þessara fisktegunda.

Ef við skoðum möguleika HB Granda á að vaxa og eflast í þessu ljósi sjáum við að þeir eru nokkuð góðir.

Þegar ég hugsa um framtíðarhorfur rifjast upp það sem einu sinni var sagt. „Flestir ofmeta það sem þeir geta gert á einu ári en vanmeta það sem þeir geta á tíu árum.“

Rekstur og uppbygging fyrirtækis krefst þolinmæði og nákvæmni. Mikilvægt er að hafa gott starfsfólk og ég hef verið lánsamur á lífsleiðinni að hafa kynnst og starfað með miklum fjölda traustra og góðra samstarfsmanna Á þessu ári sem ég hef verið hér í HB Granda finn ég að á þessu er enginn breyting.

Ég vil þakka stjórn og starfsfólki HB Granda fyrir gott samstarf á liðnu ári.“

 

Deila: