Vestmannaey og Bergur lönduðu fullfermi

Deila:

Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE lönduðu báðir fullfermi í Vestmannaeyjum á mánudaginn, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar. Þar segir að aflinn hafi verið afar blandaður. Afli Vestmannaeyjar hafi mest verið ýsa og þorskur en að Bergur hafi auk þess landað kola, ufsa og fleiri tegundum.

Haft er eftir Ragnari Waage Pálmasyni, skipstjóra á Bergi, að þeir hafi farið víða. Alls staðar hafi fiskurinn verið góður. Bergur byrjaði að taka tvö prufuhol á Reynisdýpi og á Öræfagrunni en síðan var farið á Ingólfshöfðann, þaðan í Sláturhúsið og loks á Ingólfshöfðann aftur, að því er fram kemur á vefnum.

Í fréttinni er einnig rætt við Birgi Þór Sverrison, skipstjóra á Vestmannaey. „Það er komin vertíð og þetta lítur vel út. Við þurfum að blanda aflann og byrjuðum túrinn með því að kanna með ufsa en vorum síðan á Ingólfshöfða í fínni veiði. Túrinn tók um tvo sólarhringa og þar af fór um það bil sólarhringur í keyrslu,“ er haft eftir honum.

Deila: