Eldi gæti eftir áratug staðið undir 6% af landsframleiðslu

Deila:

Á tíu árum gæti möguleg verðmætasköpun í lagareldi numið um 6 prósentum af vergri landsframleiðslu Íslands. Þessi framleiðsla gæti veitt um þremur prósentum af núverandi vinnuafli á Íslandi atvinnu.

Lagareldi er samheiti yfir allt eldi; sjókvíaeldi, landeldi, úthafseldi og þörungaeldi.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í skýrslu um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi sem unnin var að beiðni Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra og kynnt var á Hilton Reykjavík Noridca á þriðjudag. Þar var alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið Boston Consulting Group sem vann skýrsluna.

Skýrslan gerir ítarlega úttekt á stöðu lagareldis á Íslandi ásamt framtíðarmöguleikum og áskorunum greinarinnar. Niðurstöður skýrslunnar munu nýtast við stefnumótun fiskeldis á Íslandi til framtíðar. Tekið var mið af umhverfismálum, verðmætasköpun og regluverki.

Í skýrslunni segir að líklegt þyki að efnahagslegt verðmæti lagareldis muni aukast enn frekar eftir næsta áratug þegar fyrirtæki í greinunum fjórum hafa aflað sér reynslu og aukið stærðarhagkvæmni. Skattspor greinar stækkar alla jafnan þegar hún eflist og þroskast og rekstur fyrirtækja verður arðbærari. „Ef ekki er hugað að sérstökum mótvægisaðgerðum, geta miklum og hröðum vexti fylgt neikvæð áhrif. Í því tilliti þar sérstaklega að huga að umhverfisáhrifum. Hvernig sem á það er litið mun svo ör vöxtur hafa mikil áhrif á íslenskt samfélag,“ segir enn fremur.

Fram kemur einnig að fyrir liggi að heimurinn þurfi brauðfæða yfir 8 milljarða manna. Sjálfbær matvælaframleiðsla sé þar lausnin og þar hafi lagareldi sterka stöðu. „Til samanburðar við aðrar framleiðsluaðferðir prótíns til manneldis, er losun gróðurhúsalofttegunda og fóðurþörf hagstæð í fiskeldi. Á Íslandi er gott aðgengi að sjálfbærri orku sem skapar kjöraðstæður fyrir sjálfbæra matvælaframleiðslu. Þörungaeldi á Íslandi hefur möguleika til að vera kolefnishlutlaust og sýnt hefur verið fram á að notkun þörunga í fóðri fyrir aðrar dýrategundir getur dregið úr losun. Út frá hagrænum sjónarmiðum er verðmætasköpun sem hlutfall af losun gróðurhúsalofttegunda einnig hagstæð.“

Í skýrslunni segir að stærsta áskorun lagareldis séu áhrif þess á umhverfið og vistkerfi sjávar. Það eigi fyrst og fremst við um opnar sjókvíar. „Sérstakt áhyggjuefni eru áhrif opinna sjókvía á villta laxastofna. Lax sem sleppur úr kvíum skapar hættu á erfðablöndun við Norður-Atlantshafslaxinn sem stefnir framtíð hans í hættu. Opnar sjókvíar losa mikið magn lífrænna efna í sjó sem hefur áhrif á hafsbotninn í nágrenni þeirra. Ásætuvarnir sem fela í sér notkun á kemískum efnum til að verja net eru einnig skaðlegar sjávarlífverum. Ný tækni, t.a.m. lokaðar sjókvíar, bera með sér væntingar um að takmarka megi þessi áhrif en notkun þeirra er ekki enn orðin útbreidd. Eftir því sem sjókvíaeldi vex á Íslandi þarf að leggja sérstaka áherslu á að takmarka neikvæð umhverfisáhrif.“

Skýrsluna má í heild lesa hér.

Deila: