Loðnan komin vestur undir Hrollaugseyjar

Deila:

Loðna hefur gengið hratt suður og vestur með landinu síðustu dagana og fremsta gangan var komin á Hrollaugseyjasvæðið vestan Hornafjarðar í morgun. Þar voru nokkur íslensk uppsjávarveiðiskip, sem fyrst létu úr höfn að afloknu sjómannaverkfalli, að veiðum nú laust fyrir hádegið en önnur voru á leiðinni á miðin.

,,Það er loðna komin upp á grunnin við SA-land og eru uppsjávarskipin að veiðum við Hrollaugseyjar. Venus NS og Víkingur AK eru á leiðinni á miðin og skipin verða komin þangað seinni partinn í dag,“ segir Garðar Svavarsson, framkvæmastjóri uppsjávarsviðs HB Granda í samtali á heimasíðu fyrirtækisins.

Að sögn Garðars var hrognafyllingin fremst í göngunni um 16-17% í lok síðustu viku, samkvæmt fréttum frá norskum skipum sem verið hafa að loðnuveiðum hér við land, og er hún nú komin upp í um 20%.

Í morgun var um hálfur annar tugur norska skipa að loðnuveiðum út af Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði en norsku skipin mega ekki veiða sunnan við 64°N og 30´V og aðeins með nót á tímabilinu 20. október til 22. febrúar. Veiðitímabili norsku skipanna, sem eru að verða búin með kvóta sína, er því að ljúka. Að sögn Garðars er loðnan, sem nú veiðist út af Austfjörðum, með um 16% hrognafyllingu.

,,Það er ljóst að við þurfum að hafa okkur alla við næstu vikurnar til að veiða heimildir félagsins en við erum engu að síður vongóðir um að það takist,“ segir Garðar Svavarsson.
 

 

Deila: