33% veiðigjald á hagnað sem er ekki til!

Deila:

„Mér sýnist nánast fyrirsjáanlegt að uppsjávarflotinn verði rekinn með tapi fyrir vexti og afskriftir og hvað þá?  Á samt að leggja 33% veiðigjald á hagnað sem ekki er til?,“ Þetta sagði Guðmundur Örn Gunnarsson, stjórnarformaður Vinnslustöðvarinnar á aðalfundi fyrirtækisins í lok síðustu viku. Ræða hans fer hér á eftir:

„Það eru bæði skin og skúrir í kringum Vinnslustöðina um þessar mundir og um sjávarútveginn yfirleitt. Þannig er það gjarnan og verður með þessa atvinnugrein.

Aðstæður okkar voru að ýmsu leyti erfiðar á árinu 2018 en félagið er samt að skila góðu uppgjöri og afkomu. Þar er augljóst að miklar fjárfestingar og framkvæmdir til lands og sjávar undanfarin ár skila strax mjög merkjanlegum árangri. Ég vík að því betur hér á eftir.

Fyrst vil ég bjóða fulltrúa Fisk Seafood velkomna til aðalfundar eftir að þetta öfluga fyrirtæki á Sauðárkróki eignaðist um þriðjungshlut í Vinnslustöðinni. Við fundum strax fyrir jákvæðum straumum sem fylgdu nýjum meðeiganda og við hlökkum til samstarfs verður bæði eigendum og Vinnslustöðinni til góðs.

Skipið afkastamikið og sparneytið

Nýja uppsjávarfrystihúsið afkastar meiru en við gerðum ráð fyrir og betri vöru sömuleiðis. Viðbrögð markaðarins sýna þetta og sanna. Uppsjávarhúsið stendur því undir væntingum og gott betur en það.

Sömu sögu er að segja af nýju frystigeymslunni. Hún stendur því miður tóm að stórum hluta núna af augljósum ástæðum en reynslan sýnir að þarna eru uppfylltar ströngustu gæðakröfur um frystingu og meðferð sjávarfangs. Í frystigeymslunni er 27 gráða frost á selsíus og við þær aðstæður frýs fita í feitum fiski á borð við síld og makríl.  Eftir að geymslan var tekin í gagnið höfum við ekki fengið svo mikið sem eina kvörtun vegna gæða síldarafurða líkt og kom fyrir þegar við geymdum afurðirnar í erlendum frystigeymslum.

Síðast en ekki síst nefni ég Breka VE, nýja ísfisktogaranna okkar. Nú er liðið eitt ár frá því skipið lagði upp í heimsiglingu frá Kína og það hóf veiðar í lok júlí 2018.  Útgerð skipa Vinnslustöðvarinnar gekk reyndar vel í heildina á árinu en reynslan af Breka fer fram úr björtustu vonum, get ég sagt í allri hreinskilni. Skipið er afkastamikið, sparneytið og á því er úrvalsmannskapur.

Mest selt til Asíu

Ef við hugsum okkur markaðssvæði Vinnslustöðvarinnar sem heimskort þá hefur það breyst afar mikið og raunar dramatískt á tiltölulega skömmum tíma.

Fyrir 7 árum seldi Vinnslustöðin 12% frystra uppsjávarafurða sinna á mörkuðum í Asíu en núna er þetta hlutfall komið í 46%. Með öðrum orðum fer nær fjórfalt meira af afurðum okkar til Asíu en fyrir sjö árum. Vægi Rússlands og annarra ríkja Austur-Evrópu í viðskiptavinahópnum okkar hefur dregist saman að sama skapi. Þarna var aðalmarkaður okkar áður en er sem sagt nú í Asíu.

Nærtækasta skýringin er sú að Rússlandsmarkaður lokaðist af pólitískum ástæðum en fleira kemur til. Annars vegar höfum við með fjárfestingum og vinnubrögðum lagað okkur að kröfum Asíumarkaðar og hins vegar skilar það miklum verðmætum til Vinnslustöðvarinnar og í íslenskt þjóðarbú að félagið gerðist meðeigandi í Okada Susian, rótgrónu fyrirtæki með nær helmingshlutdeild í markaði fyrir loðnuafurðir þar í landi. Þetta var farsælt skref.

Japansmarkaður er auðvitað gríðarlega mikilvægur en markaðurinn í Kína sækir stöðugt í sig veðrið, Suður-Kórea sömuleiðis og fleira mætti nefna.

Fyrir um 5 árum fórum við að taka þátt í sjávarútvegssýningu í Kína og og gerum það reglulega. Árangurinn lætur ekki á sér standa.  Áður seldum við ekkert til Kína en á síðasta ári fóru tæplega 9% verðmæta frystra uppsjávarafurða þangað.

Oft og iðulega er fullyrt hér á á landi að íslenskur fiskur selji sig sjálfur. Það er einfaldlega rangt og nægir að vísa til afleiðinga síðasta sjómannaverkfalls og dæma um kaupendur sem gáfust þá upp á að fá ekki fiskinn sinn vikum saman og hafa ekki skilað sér aftur.

Við fiskum ekki nema með því að róa, við vinnum ekki fisk nema afla hans og fiskurinn selst ekki nema með þrotlausri vinnu og afhendingaröryggi á mörkuðum.

Nýir markaðir hafa opnast og ný viðskiptasambönd hafa skapast beinlínis vegna þess að við reistum uppsjávarhúsið og frystigeymsluna. Það er afar ánægjulegt að verða viti að því.

Þetta var kaflinn um skinið í ávarpinu, nú er komið að skúrunum.

Stemningin önnur

Stemningin í Eyjum er önnur og lágstemmdari núna en hún hætti að vera. Loðnan skilur eftir sig stórt skarð í rekstrinum okkar og í byggðarlaginu. Aldrei í sögunni hefur verið leitað svo lengi, víða og mikið að loðnu við Ísland og nú en allt kom fyrir ekki. Aldrei fannst nógu mikið til að Hafrannsóknastofnun gæfi út kvóta til veiða.

Þrátt fyrir þetta höfum við ekki áhyggjur af því að loðnustofninn sé hruninn. Sjómenn segja til dæmis fréttir núna af umtalsverðri loðnu víða um sjó, í kringum Eyjar og vestur fyrir Snæfellsnes. Það er hins vegar sýnd veiði í ár en ekki gefin, í bókstaflegri merkingu, en boðar væntanlega betri tíð síðar.

Eitt er  samt víst og það er að þekking okkar á lífsferli loðnu er afar takmörkuð.Það getur ekki verið eðlilegt að stjórnvöld leggi ekki sitt af mörkum til eðlilegra grunnrannsókna á hegðun loðnunnar. Mikið er samt talað um grunnrannsóknir og nýsköpun í öðrum atvinnugreinum og hversu mikilli verðmætasköpun slíkt skili. Allt er það rétt og satt.

Hvað loðnuna varðar skiptir gríðarlegu máli að rannsaka hana og meta magn hennar í sjónum. Þar getur hæglega ráðist hvort þjóðarbúið fái 10 til 20 milljarða króna tekjur eða ekki. Helmingurinn rynni beint eða óbeint til ríkisins.

Óskiljanlegt er því hve sinnulítil stjórnvöld landsins hafa verið um árabil gagnvart grunnrannsóknum í hafinu. Tiltölulega ódýrar rannsóknir geta ráðið úrslitum um miklar tekjur.

En rétt skal vera rétt. Í vetur varð hér mikil breyting á sem vert er að  nefna sérstaklega og þakka, það er samvinna og samstarf stjórnvalda, Hafrannsóknastofnunar og útgerðarfyrirtækja um loðnuleit. Þetta samstarf fór að taka á sig mynd í fyrrasumar og þar skipti máli að Vinnslustöðin tók ákveðið frumkvæði. Mestu skipti samt að í stóli sjávarútvegsráðherra situr Kristján Þór Júlíusson. Hann býr að mikilli reynslu og þekkingu úr sjávarútvegi og stuðlaði mjög að nánu samstarfi sem náðist um loðnuleitina.

Lokun Rússlandsmarkaðar á sínum tíma var áskorun um að hugsa öðru vísi en áður. Opna aðrar dyr og leita annarra leiða og möguleika þegar þær dyr lokuðust sem við vorum vön að ganga um.

Loðnubresturinn lokar vissulega dyrum hjá okkur, sem við vonum og trúum að sé tímabundið, en Vinnslustöðvarfólk kannar um þessa dagana hvaða dyr megi hugsanlega opna í staðinn og reyna að draga úr áfallinu sem loðnubresturinn augljóslega er.

Humarbrestur

Humarbrestur kemur yfir okkur á sama tíma, sömuleiðis verulegt högg fyrir félagið og samfélagið hér. Sameiginlegt er með humri og loðnu að óþægilega lítið er vitað um ástæður þess hvernig komið er. Reyndar hafa vísindin alls engin svör við spurningum um hvað eiginlega gerðist með humarinn og hvers vegna.

Vinnslustöðin mun í sumar bregðast við samdrætti í humri með því að undirbúa og jafnvel hefja tilraunaveiðar með gildrur. Fyrir tæpum 10 árum gerði félagið tilraunir með gildruveiðar. Þær gengu þokkalega en við hvorki þekktum mikið til tilheyrandi markaðsmála né höfðum nægilega góð tengsl við markaðinn. Nú tökum við upp þráðinn að nýju við að undirbúa gildruveiðar humars og kanna markaðsmálin vel og markvisst.

Í framhaldi af því sem ég hef hér sagt um grunnrannsóknir og skort á mikilvægri þekkingu varðandi lífríki hafsins hlýtur að mega rifja upp að veiðigjöld voru lögð á sjávarútvegsfyrirtæki meðal annars með þeim rökum að afla þyrfti tekna til fiski- og hafrannsókna. Reyndin er því miður sú að minnst af þessum gríðarlegum fjármunum skilar sér þangað.

Sanngjarn hlutur?

Önnur röksemd fyrir veiðigjöldum var að þjóðin þyrfti „sanngjarnan hlut“ í vasa sinn af auðlindum sjávarins. Gott og vel. Hvað nú ef uppsjávarfyrirtæki landsins verða rekin með tapi? Veiðigjöld eru nefnilega ekki lögð á hagnað, heldur eru þau 33% á hagnað fyrir vexti og afskriftir.

Mér sýnist nánast fyrirsjáanlegt að uppsjávarflotinn verði rekinn með tapi fyrir vexti og afskriftir og hvað þá?  Á samt að leggja 33% veiðigjald á hagnað sem ekki er til?

Þessa daga og vikur ríkir mikil óvissa um framvindu mála í fyrirtækjum og i samfélaginu á meðan reynt er að ná kjarasamningum í skugga yfirlýsinga um víðtækari vinnustöðvanir en hér hafa þekkst í áratugi. Niðurstaðan gæti orðið örlagarík, líka fyrir sjávarútvegsfyrirtækin í ljósi þess að aftur og aftur heyrist að einfalt sé að stórhækka veiðigjöldin til að ná einhverjum endum saman í kjarasamningunum!

Launakostnaður fyrirtækja er mikill og hefur hækkað mjög á fáum árum. Þau hafa ekki síst brugðist við með því að tæknivæða starfsemi sína og framleiðslu en fækka störfum að sama skapi. Afgreiðslufólki í verslunum snarfækkar til dæmis og í staðinn koma sjálfsafgreiðslukerfi. Með tæknivæðingu í Vinnslustöðinni hefur störfum fækkað um 80 á fáum árum en afköstin aukast á sama tíma.

Í gærkvöld bárust fregnir af frestun verkfalls, sem gæti gefið til kynna að eitthvað sé að rofa til hjá samninganefndum í sölum ríkissáttasemjara. Við skulum vona innilega að þessi tíðindi boði frekar eitthvað gott en tímabundið logn á undan stormi á vinnumarkaði.

Blikur á lofti

Þrátt fyrir að ýmsar blikur séu á lofti hjá okkur í Vinnslustöðinni, aðallega vegna sviptinga í lífríki sjávarins, leyfi ég mér að vera frekar bjartsýnn en svartsýnn. Starfsmenn Vinnslustöðvarinnar hafa áður sýnt og sannað hverju þeir fá áorkað þegar á móti blæs og þeir snúa bökum saman í leit að nýjum tækifærum til atvinnu- og tekjusköpunar. Ég nefni sem dæmi nýjan, stóran samning Marhólma ehf., dótturfélags Vinnslustöðvarinnar, um sölu fullunninna hrognaafurða til Bandaríkjanna. Sá samningur kveður á um að loðnuhrogn, sem áður fóru óunninn til vinnslu vestanhafs, verði unninn í Eyjum og flutt út sem tilbúin vara. Verðmætasköpunin á sér með öðrum orðum stað hér heima.“

 

Deila: