Nú er reiknað

Deila:

Loðnumælingum á vegum Hafrannsóknastofnunar er lokið að sinni. Rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Polar Amaroq eru komin til Norðfjarðar en Bjarni Sæmundsson er á leið til Reykjavíkur. Þorsteinn Sigurðsson sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar segir að leiðangursstjórarnir á Árna Friðrikssyni og Polar Amaroq hafi komið með flugi til Reykjavíkur í morgun og nú sé reiknað af krafti.

Að sögn Þorsteins í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar er nú unnið við að kvarða fiskileitartækin um borð í Árna Friðrikssyni og tækin um borð í Polar Amaroq verði kvörðuð í kvöld eða á morgun. Í kvörðuninni felst að mæld er næmni hvers tækis og er það gert fyrir flesta leiðangra. Tækin um borð í Bjarna Sæmundssyni voru kvörðuð áður en haldið var af stað í leiðangurinn.

Gögnunum frá rannsóknaskipunum verður safnað saman og þá fæst ákveðin heildarmynd af þeirri loðnu sem mælist. Á grundvelli mælingarniðurstöðunnar verður síðan tekin ákvörðun um hvort bætt verður við kvótann. Lengi gilti sú regla að skilja þurfti eftir 400 þúsund tonn af þeirri loðnu sem mældist til að hrygna en nú gildir hins vegar ný  veiðiregla sem ákveðin var af stjórnvöldum á Íslandi, Grænlandi og í Noregi en Alþjóðahafrannsóknaráðið mat það svo að sú regla  tæki fullnægjandi tillit til óvissu í hverri mælingu. Nýja reglan leiðir gjarnan til þess að minna er veitt af þeirri loðnu sem mælist.

Þorsteinn segir að erfitt sé að segja til um hvenær niðurstaða úr loðnumælingunni liggi fyrir. Slík niðurstaða muni ekki liggja fyrir á morgun en með bjartsýni megi ef til vill gera ráð fyrir henni á föstudag. Hann segir hins vegar að öll áhersla sé lögð á að útreikningarnir gangi hratt fyrir sig.

Á myndinni er hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson við festar á Norðfirði í morgun. Ljósm. Smári Geirsson

 

Deila: