Von á greinargerð bankaráðs SÍ síðar í mánuðinum

Deila:

Bankaráð Seðlabanka Íslands stefnir að því að klára greinargerð um Samherjamálið og skila til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra síðar í mánuðinum. Þetta kemur fram í svari frá Seðlabankanum við fyrirspurn frá fréttastofu ruv og birt er á heimasíðu hennar. Þar segir að ekki sé vitað til þess að ný dagsetning hafi verið gefin fyrir skil á greinargerð.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra óskaði þann 12. nóvember eftir greinargerð frá Seðlabanka Íslands um mál Samherja frá þeim tíma sem rannsókn bankans hófst á meintum brotum útgerðarfyrirtækisins á lögum um gjaldeyrismál. Sérstaklega er óskað eftir upplýsingum um hvað hafi legið að baki ákvörðun Seðlabankans að taka málið upp aftur.

Hæstiréttur staðfesti 8. nóvember dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að fella úr gildi ákvörðun Seðlabankans að Samherji skyldi greiða stjórnvaldssekt vegna brota á gjaldeyrislögum.

Forsætisráðherra óskaði einnig eftir útlistun á því hvort og þá með hvaða hætti Seðlabankinn ætlaði að bregðast við dómnum og hvort dómsniðurstaðan kallaði á úrbætur á stjórnsýslu bankans og þá hvaða.

Bankaráðið átti að skila greinargerðinni á föstudaginn var, en í fréttum RÚV um helgina kom fram að bankaráð Seðlabankans hefði fengið frest og að þess væri vænst að henni yrði skilað innan fárra daga.
 

Deila: