„Ágúst Ólafur og staðreyndir um veiðigjald“

Deila:

„Það er alvarlegt mál þegar fulltrúi í fjárlaganefnd, sem veit betur, setur fram rangar fullyrðingar. Rétt skal vera rétt. Ríkisstjórnin hyggst hækka íþyngjandi veiðigjald til muna, svo mikið að greininni stafar hætta af.“

Svo segir í pistli sem birtur er á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og er þar vísað greinar eftir Ágúst Ólaf Ágústsson alþingismann. Pistillinn er svohljóðandi:

„Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fulltrúi í fjárlaganefnd Alþingis, ritaði nýverið að veiðigjald muni lækka á næsta ári. Orðrétt skrifar hann: „Loks stendur enn til að lækka veiðileyfagjöldin um 3 milljarða milli ára og nú verða þau svipuð og tóbaksgjaldið (!) sem ríkið innheimtir…“ Staðreyndin er sú að veiðigjald hækkar með nýju frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Veiðigjald er 33% af hagnaði
Veiðigjald er, og hefur verið, tengd afkomu greinarinnar. Ef launamaður lækkar í launum lækka tekjuskattsgreiðslur hans að sama skapi. Samt sem áður væri beinlínis rangt að halda því fram að hann hafi notið skattalækkunar ef skattprósentan er sú sama. Skatthlutfall veiðigjalds var 33% og verður áfram 33%. Hagnaður fiskveiða fyrir skatt var 33,2 milljarðar árið 2016 en lækkaði í 6,9 milljarða árið 2017. Lækkunin nemur 79%. Svo einfalt er það.

Skattahækkun í nýju frumvarpi
Veiðigjald hækkar samkvæmt nýju frumvarpi. Tvær ástæður skýra það að mestu. Í fyrsta lagi er veiðigjaldið sjálft ekki lengur frádráttarbært frá gjaldstofni. Þar sem veiðigjaldið hefur verið 33% af hagnaði fyrir skatt hækkar þessi aðgerð gjaldstofninn til muna. Þannig verður veiðigjaldið mun hærra hlutfall af afkomu en verið hefur, þrátt fyrir að prósentan sé óbreytt. Í öðru lagi er bætt 10% álagi ofan á tekjur í uppsjávarveiðum. Kostnaðarliðir haldast óbreyttir. Þetta leiðir til þess að sú staða gæti jafnvel komið upp að greiða þyrfti veiðigjald af uppsjávarveiðum þó að greinin væri rekin með tapi.

Hvernig hefði veiðigjald orðið?
Á næsta ári er gert ráð fyrir að veiðigjald, samkvæmt frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi, nemi rúmum sjö milljörðum árið 2019 og á bilinu sex til átta milljörðum næstu tvö ár eftir það. Samkvæmt núgildandi lögum hefði veiðigjald numið um tveimur og hálfum milljarði fyrir fiskveiðiárið 2019 til 2020. Afkoma fiskveiða lækkar um 79% meðan veiðigjaldið lækkar um 33%. Því er augljóslega um að ræða hækkun gjaldsins.

Það er alvarlegt mál þegar fulltrúi í fjárlaganefnd, sem veit betur, setur fram rangar fullyrðingar. Rétt skal vera rétt. Ríkisstjórnin hyggst hækka íþyngjandi veiðigjald til muna, svo mikið að greininni stafar hætta af.“

 

Deila: