Spyr ráðherra um hæfi hans í kvótamálinu

Deila:

Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, spurði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hvort hann teldi sig þurfa að skoða hæfi sitt þegar lög og reglugerðir um fiskveiðistjórnunarkerfið kæmu til endurskoðunar í kjölfar dóms Hæstaréttar á fimmtudaginn.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið væri bótaskylt gagnvart útgerðuarfélaginu Hugin og Ísfélaginu, vegna þess að ekki hefði verið rétt staðið að úthlutun kvóta í makríl á árunum 2011 til ársins 2014.Frá þessu er greint á heimasíðu ruv.is

Hugsanlega tugmilljarða hagsmunir

„Það er ljóst að ekki er aðeins um gríðarlega fjárhagslega hagsmuni að ræða sem skipta milljörðum ef ekki tugum milljarða króna heldur er ljóst að dómurinn snertir ýmis grundvallaratrði í fiskveiðistjórnun og það fyrirkomulag sem viðhaft hefur verið á undanförnum árum,“ sagði Þorsteinn og bætti því við að ekki yrði annað ráðið af dómsorði en að stjórnvöldum séu verulegar skorður settar við úthlutun veiðiheimilda.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur lýst því yfir að hann telji að endurskoðun laga sé óhjákvæmileg í kjölfar þessa dóms.

Þorsteinn spurði hvort ráðherra hygðist hafa þverpólitískt samráð við endurskoðun laga og reglugerða vegna þessa máls. Hann spurði jafnframt hvort Kristján teldi að núverandi fyrirkomulag úthlutunar stangaðist einnig á við ákvæði laga um fiskveiðistjórnun, í ljósi þess að dómurinn nær einungis til þess fyrirkomulags sem viðhaft var á árunum 2011-2014. Jafnframt spurði Þorsteinn hvernig ráðherra teldi að horfa ætti til veiðireynslu áranna eftir 2011 ef það kemur til endurskoðunar á lögum um stjórn fiskveiða.

Loks sagði Þorsteinn að ef ákveðið yrði að ráðast í lagabreytingar þar sem einungis yrði stuðst við veiðireynslu á árunum 2008 til 2010, sem Hæstiréttur taldi að horfa ætti til í málum Ísfélagsins og Hugins, þá myndu fyrst og fremst stærstu útgerðir landsins njóta góðs af því.

Tengslin við Samherja

„Ég hygg að Samherji og tengdar útgerðir hafi fimmtung núgildandi veiðiheimilda og ljóst að það fyrirtæki mun njóta góðs af því ef þessum heimildum verði endurúthlutað með vísan til þessarar veiðireynslu. Hæstvirtur ráðherra hefur haft forgöngu um að upplýsa um hagsmunatengsl sín við það fyrirtæki og hefur sagt að hann myndi skoða sérstaklega hæfi sitt kæmu slík mál upp. Ég myndi vilja spyrja hæstvirtan ráðherra hvort hann teldi slíkt eiga við í þessu tilfelli,“ sagði Þorsteinn.

Kristján Þór svaraði spurningunni ekki beint en vakti athygli þingmannsins á því að það fyrirkomulag sem viðhaft við úthlutun makrílhemilda hefði verið sett í tíð Þorsteins Pálssonar sem sjávarútvegsráðherra. Því fyrirkomulagi hafi verið komið á í samráði allra þingflokka. Það hefði verið vandað regluverk sem Jón Bjarnason fyrrverandi sjávarútvegsráðherra hefði ekki virt í ráðherratíð sinni.

 

 

Deila: