Góður ufsatúr hjá Helgu Maríu

Deila:

,,Það gekk ljómandi vel. Við vorum heppnir með veður og fengum ágætan afla í túrnum. Ufsinn gaf sig til og uppistaða aflans er ufsi og svo erum við með tegundir eins og þorsk og karfa,“ sagði Heimir Guðbjörnsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Helgu Maríu AK, er haft var samband við hann af heimasíðu HB Granda um miðjan dag. Togarinn var þá staddur út af Dýrafirði á leið til Reykjavíkur með tæplega 170 tonna afla.

,,Við byrjuðum túrinn efst í Skerjadjúpinu og þar fengum við ufsa. Næst lá leiðin á Fjöllin og þar var ufsi í takmörkuðu magni í bland við karfa. Við fórum svo í Víkurálinn og lukum við að taka karfaskammtinn en þar var einnig ufsi. Við fylgdum síðan kantinum norðaustur eftir og fengum ágætan þorskafla,“ segir Heimir en hann upplýsir að það hafi fyrst verið þegar komið var norður á Þverálshornið að ufsaveiðin hafi glæðst fyrir alvöru.

,,Við fengum fína ufsaveiði á Þverálshorninu og í gær og í nótt kom bara ufsi í trollið. Þetta var allt saman fínasti ufsi eða um tvö kíló að jafnaði og það var ekki fyrr en í morgun að það tók að bera á þorski sem meðafla. Hann var þó ekki meiri en svo að að hann passaði nákvæmlega upp á þau tæplega fjögur tonn sem okkur vantaði til að ná þorskskammti veiðiferðarinnar,“ segir Heimir en í máli hans kemur fram að alls staðar á Vestfjarðamiðum verði menn varir við loðnu. Hún sé ýmist ánetjuð í trollpokanum eða þá vart verði við hana í fisknum sem þarna veiðist.

Heimir segist búast við því að koma til Reykjavíkur seint í nótt en áformað er að hefja löndum kl. 6 í fyrramálið. Gangi það eftir verður togarinn klár fyrir næstu veiðiferð í hádeginu á föstudag.

Deila: