Lundey seld til Noregs

Deila:

HB Grandi hefur selt uppsjávarveiðiskipið Lundey NS til Noregs. Söluverðið er 1,1 milljón bandaríkjadollarar eða jafnvirði um 124 milljóna íslenskra króna. Kaupandi er norska útgerðarfélagið Partrediet Karolös ANS í Bekkjarvik og staðgreiðir það skipið.

Samkvæmt upplýsingum Vilhjálms Vilhjálmssonar, forstjóra HB Granda, hefur kaupandinn fengið tilraunaveiðileyfi á laxsíld, m.a. á gulldeplu sem íslensk skip veiddu um hríð, hjá norskum yfirvöldum og verður skipið notað til þeirra veiða. Áformað er að sigla Lundey til Noregs um næstu helgi.

Lundey var smíðuð árið 1960 í Rendsburg í Þýskalandi. Áður en skipið komst í eigu HB Granda hét skipið Guðrún Þorkelsdóttir SU og var það gert út frá Eskifirði. Lundey er 62,95 metrar milli lóðlína og 10,40 metrar að breidd og mælist skipið 836 brúttórúmlestir. Lundey var lagt haustið 2015 vegna komu Venusar NS til landsins.
Ljósmynd Þorgeir Baldursson

Deila: