Meira af smærri fiski síðustu árin
Hafdís SU 220 er 30 tonna í stóra kerfinu stundar línuveiðar með beitningarvél, en er nú í landi vegna verksfalls sjómanna. „Við erum 6 um plássið, fjórir um borð í einu, tveir í fríi. Þannig erum við 10 daga á sjó í einu og fimm daga í fríi. Mestmegnis af árinu erum við fyrir austan mest á Norðfirði. Nú kom verkfall inn í myndina og þá er báturinn fastur fyrir austan. Annars höfum við alltaf komið með hann suður á vetrarvertíðina. Aflinn er unninn í Hafnarfirði í húsi sem útgerð Hafdísar, Eskja, á þar og fer mest af honum ferskt utan með flugi,“ segir Andrés Pétursson, skipstjóri á Hafdísi SU, í samtali við Ægi, sem er nýkominn út.
„Við erum með mjög góða kvótastöðu og höfum verið að veiða um 1.700 á kvótaárinu. Það er fínasta kropp.“
Langt stím á miðin fyrir austan
Þeir eru að leggja í kringum 17.500 króka, með 14 þriggja metra rekka. Það er allur gangur á því hve langur tími fer í róður. Fyrir austan er miklu lengra stím á miðin en frá Reykjanesinu. „Þetta er allt frá þremur upp í sex tíma stím hvor leið. Þá erum við á Hornflákanum úti í Gullkistu í Seyðisfjarðardýpi og í Litla dýpi. Þá fara alveg sex til tólf tímar í stím á sólarhring. Við erum um tvo tíma að leggja og á milli sjö og átta tíma að draga línuna. Við reynum svo oftast að taka smá bauju áður en byrjað er að draga til að fá smá hvíld milli lagnar og dráttar. Stundum næst það ekki því við erum bundnir af því að vera alltaf komnir í land fyrir þrjú á daginn til að koma aflanum á bíl sem keyrir hann suður til vinnslu. Við erum bara eins og strætó fyrir austan, bara inn og út strax aftur. Þá notar maður stímið til að hvíla sig og baujuna. En það alltaf maður á vakt á stíminu. Á baujunni er bara látið reka.
Ef við erum að róa frá Grindavík eða Sandgerði er stímið bara hálftími eða klukkutími. Einstaka sinnum nær það tveimur tímum.
Við reynum alltaf að leggja línuna í myrkri því veiðin verður lakari ef hún er lögð í björtu. Það er alveg sannreynt. Á veturna er þetta ekki mikið vandamál þá reynir maður að leggja um sex leytið en eftir því sem daginn lengir færist þetta nær miðnættinu.
Ef ekkert verkfall væri, værum við líklega að huga að því að koma okkur suður. Janúar fyrir sunnan hefur verið frekar rólegur undanfarin ár og því höfum við ekki verið að fara suður fyrr en um mánaðamótin janúar febrúar. Krafturinn hefur ekkert verið að byrja í þessu fyrr en í byrjun febrúar. Veiðin stendur svo yfir til 11. maí, þá þurrkast þetta upp. Þá hættir þorskurinn að taka línu rétt eins og hann viti að 11. maí er lokadagur. Þá förum við bara austur aftur,“ segir Andrés.
Nýsmíðaálag og olíuprósenta
Andrés er skipstjóri og því ekki í verkfalli. Hann rær hins vegar ekki einn og er því í landi á kauptryggingu. Jólafríið er orðið miklu lengra en honum líkar og vonast til að lausn á deilunni finnist sem fyrst og hægt verði að fara að sækja sjóinn eðlilega á ný. „Þetta er þegar farið að koma sér illa fyrir alla í keðjunni frá veiðum til útflutnings. Það hlýtur að vera hægt að fara að semja. Sjómenn eru búnir að vera samningslausir í sex ár og löngu kominn til til að semja.“
Andrés segir að það virðist vera olíuprósentan og nýsmíðaálagið sem sé sjómönnum mestur þyrnir í augum og vilja ekki gefa eftir þar. Nýsmíðaálagið komi mjög misjafnlega niður á sjómönnum, sumir séu ekki á skipum sem falla undir það ákvæði og einhverja útgerðir nýti ekki heimildina til að leggja það á. Það komi við hjá einhverjum enda þýði það 10% launalækkun. Þetta finnist honum frekar ósanngjarnt, en þetta ákvæði á ekki við á Hafdísi. Andrés veltir því svo fyrir sér hvort nýsmíðaálagið sé í gildi hjá Landhelgisgæslunni, hvort tekin séu 10% af laununum hjá þeim. Reyndar sé það til skammar að ekki sé til nægilegt fjármagn til að halda skipum Gæslunnar úti með sómasamlegum hætti og þyrlumálin séu í ólestri. Fyrir vikið sé öryggi sjómanna miklu minna. „Þyrlan er sjúkrabílinn okkar.“
Fiskverð í beinum viðskiptum, svokallað Verðlagsstofuverð, hefur hefur lækkað um í kringum 30% á einu ári og verð á þorski lækkaði um 7 til 10% nú síðast í janúarbyrjun. Andrés segir að taki verulega í. Það megi líkja hraðanum á verðlækkunum eins og verið sé að keyra átta strokka Camaro, en verðhækkunum eins verið sé að keyra Lödu Sport. Nú hafi reyndar verið búið að semja um Verðlagsstofuverð upp á 80% af meðalverði á mörkuðunum, en það sé ekki mikil hækkun því það hafi líklega verið nálægt 75% áður.
Tíminn illa nýttur
Andrési þykir reyndar miður að skipstjórnarmenn skuli ekki vera í verkfalli líka. Þeir hafi samið fyrstir síðastliðið sumar og þeir samningar hafi falið í sér litlar sem engar kjarabætur, smá hækkun á kauptryggingu, en fæstir sjómenn sé núorðið á kauptryggingu, það fiskist oftast fyrir meira en henni nemur. Honum finnst líka að samningamenn hafi nýtt tímann illa. Farið í jólafrí 14. desember en reyndar tekið smá skorpu í janúar, en fundir verið stuttir. Samningamenn ættu að geta staðið langar vaktir eins og sjómenn og halda sér að verki hvort sem væri um helgar eða á helgidögum. Hann vonast til að ekki verði sett lög á verkfallið og mönnum beri gæfa til að ná samningum.
Við snúum okkur svo að lífríkinu í sjónum. Andrés og hans menn eru nánast eingöngu á þorski. „Undanfarin ár hefur verið meira um smærri þorsk en áður. Þegar við byrjuðum að róa fyrir austan 2010 var þetta miklu stærri og jafnari fiskur. Núna er þetta búið að vera smærri fiskur, millifiskur og undir því. Maður þarf núna að fara lengra út í kant eins og við erum að gera til að fá stærri fisk. Nær landi er þetta mikið smærri fiskur og blandaðri. Fiskurinn hefur verið smærri núna tvö til þrjú síðustu ár. Þetta er bara merki um nýliðun og því bara jákvætt, þó maður vildi hafa meira af þessum stóra. Við fáum hann reyndar þegar við förum suður.“
Andrés segir að sumt í þessu sé svolítið skrítið eins og hrygningarstoppið hjá Hafró. Það sé eins og þeir haldi að þorskurinn byrji að hrygna á miðnætti tiltekinn dag á vertíðinni og hætti því svo klukkan 10 um morguninn 10 dögum síðar. Þetta séu einkennileg vísindi.