Krefjast 16% af makrílkvótanum
Á fundi stjórnar LS þann 17. febrúar sl. er þess krafist að sjávarútvegsráðherra afnemi nú þegar ákvæði reglugerðar um kvótasetningu smábáta í makríl. Ennfremur að ráðherra tryggi smábátum 16% hlut í árlegum heildarafla í makríl. Ályktunin er svohljóðandi:
„Stjórn Landssambands smábátaeigenda krefst þess að sjávarútvegsráðherra nemi ákvæði reglugerðar um kvótasetningu smábáta á makríl nú þegar úr gildi. Reglugerðin var sett í óþökk smábátaeigenda og þorra landsmanna sem skoraði á forseta Íslands að samþykkja ekki lög frá Alþingi um hlutdeildarsetningu á makríl. Ekki kom til þess þar sem ráðherra dró frumvarpið til baka. Hins vegar ákvað hann kvótasetningu sem staðfest var með ákvæði í reglugerð. Ákvæði sem þjóð og þing voru andvíg. Andstaðan birtist m.a. í undirskriftum um 54 þúsund Íslendinga gegn frumvarpinu. Stjórn Landssambands smábátaeigenda setur traust sitt á Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hún afnemi ákvæðið nú þegar og tryggi smábátum 16% hlut í árlegum heildarafla í makríl. Ekki verði takmarkanir á veiðum þeirra fyrr en þessari hlutdeild er náð.