Kaldbakur á heimleið
Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, hefur undanfarnar vikur verið við landamæravörslu í Miðjarðarhafi á vegum Landamæra- og strandgæslustofnunar Evrópu, Frontex. Á sunnudag kom áhöfnin auga á skip sem var á siglingu skammt suður af Pelópsskaga, syðsta hluta gríska meginlandsins. Þetta reyndist vera nýjasta skip íslenska fiskiskipaflotans, Kaldbakur EA-1, á heimleið úr skipasmíðastöð í Istanbúl í Tyrklandi.
Þetta glæsilega skip er rúmlega sextíu metra langt og vegur rúmlega tvö þúsund brúttótonn. Þegar TF-SIF flaug framhjá Kaldbaki var hann á tólf sjómílna siglingu á leið til Sikileyjar. Ágætis veður var á þessum slóðum, vestan stinningskaldi og fjórtán gráðu hiti. Áhöfn TF-SIF ræddi í gegnum talstöð við Kaldbaksmenn sem voru hinir bröttustu og létu vel af skipinu. „Við óskum Útgerðarfélagi Akureyringa til hamingju með nýja skipið og áhöfninni góðrar heimferðar,“ segir á heimasíðu Gæslunnar.