Mikið af stórri og góðri loðnu

Deila:

Von var á Venusi NS til hafnar á Vopnafirði nú um hádegisbilið með um 1.800 tonn af loðnu. Aflinn fékkst í tveimur köstum út af Skaftárósvita í gær en alls voru tekin fjögur köst í túrnum. Í hinum tveimur rifnaði nótin.

,,Það er búin að vera bræla alla leiðina þótt við séum vel á undan versta veðrinu,“ segir Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Venusi, en er heimasíða HB Granda ræddi við átti Venus eftir um klukkutíma siglingu til Vopnafjarðar.

,,Ástandið á loðnunni er mjög gott. Það er mikið magn á ferðinni en loðnan gengur hratt vestur með ströndinni. Í morgun skilst mér að gangan hafi verið komin vel vestur fyrir Dyrhólaey. Þetta er stór og góð loðna og uppistaðan í okkar afla er loðna sem telur um 35 til 40 stykki í kílóinu. Það þykir mjög gott,“ segir Guðlaugur Jónsson.

Venus fór inn á Norðfjörð í morgun en þar verður gert við skemmdirnar á nótinni. Náð verður í nótina um leið og Venus kemst aftur á miðin. Hitt uppsjávarveiðiskip HB Granda, Víkingur AK, er nú á loðnumiðunum en þar fer veður nú versnandi og ekki er útlit fyrir veiðiveður eftir hádegi fyrr en lægðin, sem veðrinu veldur, er gengin hjá.
 

 

Deila: