Vertíðarkraftur hjá Bergi og Vestmannaey

Deila:

Alvöruvertíð virðist vera hafin hjá Vestmannaeyjatogurunum Bergi VE og Vestmannaey VE. Frá þessu segir á vef Síldarvinnslunnar. Þar er rakið hvernig veiðar hafa farið fram síðustu daga.

„Þeir lönduðu báðir fullfermi á laugardaginn og var aflinn mest þorskur og ýsa sem fór til vinnslu hjá Vísi í Helguvík. Bergur landaði síðan nánast fullfermi af ufsa á sunnudaginn. Þá landaði Vestmannaey fullfermi í gærmorgun og var aflinn mest þorskur og ufsi ásamt dálitlu af ýsu. Loks er Bergur að landa í dag og er afli hans svipað samansettur og afli Vestmannaeyjar frá því í gær,” segir í fréttinni.

Rætt er við Jón Valgeirsson, skipstjóra á Bergi. „Það er kominn talsverður vertíðarkraftur í þetta og það er bara gott að landa þrisvar í viku. Annars er fiskur ekki genginn á öll hefðbundin mið en það er góð veiði annars staðar þó ekki sé um aðgæsluveiði að ræða eins og gerist þegar vertíð er komin alveg á fullt. Við erum ánægðir með að fá töluvert af ufsa en ýsan hefur verið heldur leiðinleg við okkur að undanförnu,“ segir Jón.

Deila: