Óvenju stór, falleg og vel á sig komin

Deila:

Loðnan sem veiðist um þessar mundir er óvenju stór og falleg og vel á sig komin. Slík loðna hefur ekki sést lengi og ástand hennar hefur svo sannarlega þaggað niður þá svartsýnisumræðu um loðnustofninn sem hefur verið áberandi um skeið.

Hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað hefur vinnsla á loðnu til manneldis verið samfelld frá því að veiðar hófust. Skipin koma með kælda loðnuna að landi og unnið er á vöktum við flokkun, pökkun og frystingu á henni. Frosinni loðnunni er síðan staflað upp í frystigeymslum og innan tíðar mun henni verða skipað út. Stærstur hluti loðnunnar er frystur á Japansmarkað og japanskir fulltrúar kaupenda fylgjast grannt með framleiðslunni. Það sem flokkast frá við frystinguna fer síðan til vinnslu hjá fiskimjölsverksmiðjunni. Gera má ráð fyrir að vinnsla á loðnuhrognum hefjist fljótlega en góð eftirspurn er eftir þeim og litlar hrognabirgðir fyrirliggjandi.

Þó svo að megináherslan sé lögð á manneldisvinnsluna er svo knappur tími til að ná loðnukvótanum að gera má ráð fyrir að verulegur hluti aflans fari beint til vinnslu á fiskimjöli og lýsi.
Á myndinni eru Líneik Haraldsdóttir og Takaho Kusayanagi, sem að öllu jöfnu er kallaður Kusa, að gæðameta loðnu. Japanskir kaupendur eru afar ánægðir með þá loðnu sem nú veiðist. Ljósm. Hákon Ernuson

 

Deila: