Barði fer í rallið í kvöld
Barði NK mun hefja þátttöku sína í hinu árlega togararalli í kvöld. Togararall á vegum Hafrannsóknastofnunar hefur farið fram frá árinu 1985 og er það þáttur í að meta stofnstærð botnfiska við landið. Að þessu sinni munu rannsóknaskipin Bjarni Sæmundsson og Árni Friðriksson einnig taka þátt í rallinu ásamt Ljósafelli frá Fáskrúðsfirði. Barði er í reynd arftaki Bjarts NK í rallinu en Bjartur tók þátt í 26 röllum, oftar en nokkurt annað skip. Nú er Bjartur horfinn á braut og þá er röðin komin að Barða, en Hafrannsóknastofnun leitaði eftir tilboðum til þátttöku skipa í rallinu.
Í morgun var verið að undirbúa Barða fyrir rallið og hitti þá tíðindamaður heimasíðu Síldarvinnslunnar Steinþór Hálfdanarson skipstjóra að máli. „Við munum leggja af stað í kvöld og gerum ráð fyrir að rallið taki um 20 daga, en það er töluvert háð tíðarfarinu hve langan tíma það tekur. Við eigum að toga á 182 fyrirfram ákveðnum togstöðvum á svonefndu norðaustursvæði, en það er svæðið frá Kolbeinseyjarhrygg austur og suður um að Íslands-Færeyjahrygg. Við reiknum með að byrja hér út af Austfjörðum og halda síðan norður eftir. Við áformum að taka rallið í tvennu lagi og eins gerum við ráð fyrir að landa þeim afla sem við fáum eftir þörfum. Öll veiðarfæri sem notuð eru í rallinu koma frá Hafró og eins þarf að gera dálitlar breytingar á millidekki og koma þar upp vinnuaðstöðu fyrir rannsóknafólkið. Við verðum 13 í áhöfn í rallinu og síðan verða fimm starfsmenn Hafró um borð. Leiðangursstjóri verður Valur Bogason. Hvert tog sem tekið verður er klukkutími að lengd og reynslan sýnir að unnt er að taka 10-11 tog á dag að meðaltali,“ sagði Steinþór skipstjóri.
Á myndinni eru Valur Bogason leiðangursstjóri og Steinþór Hálfdanarson skipstjóri. Ljósm. Smári Geirsson