Rífandi gangur í vertíðinni

Deila:

Vel hefur gengið að veiða og vinna bolfisk hjá Vinnslustöðinni frá því verkfalli lauk í febrúar. Skipin róa viðstöðulítið og unnið er frá mánudegi til laugardags í hverri viku eins og segir á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

Brynjólfur VE hefur verið á netum og aflað vel. Mest er sótt vestur fyrir Eyjar. Stutt er því á miðin og netafiskurinn fer allur til söltunar hjá VSV. Uppistaðan er stór þorskur en einnig er smávegis af ufsa. Gullberg VE er fyrst og fremst að veiða ufsa og karfa og aflar sömuleiðis vel. Drangavík VE hefur verið á fiskitrolli á grunnslóð og aflinn mest verið góður vertíðarþorskur auk karfa, ýsu og ufsa.

Afli trollbátanna fer í vinnslu hjá VSV annars vegar og er hins vegar fluttur út eða seldur á fiskmörkuðum. Drangavík er að skipta yfir á humarveiðar sem eru í þann veginn að hefjast. Upphaf humarvertíðar hefur færst framar undanfarin ár.

Unnið er að því að útbúa Kap II VE á netaveiðar sem hefjast á allra næstu dögum. Skipstjóri á Kap II er Baldur Þór Bragason. Meðan loðnuvertíð stóð yfir var eingöngu unninn saltfiskur hjá bolfisksviði Vinnslustöðvarinnar. Saltfiskvinnslan gengur vel og afköst eru mikil.

Gunnar Páll Hálfdánsson, framleiðslustjóri bolfisksviðs, lætur vel af gangi vertíðarinnar. „Skipin fiska ágætlega en við höfum vel undan í vinnslunni, enda stendur starfsfólkið okkar sig í stykkinu. Lykilatriði er að afköst veiða og vinnslu haldist í hendur svo gæði framleiðslunnar séu eins og vera ber.“

Vinnsla þorsk- og ufsaflaka er að hefjast, auk humarvinnslunnar sem fyrr er getið.

 

Deila: