Fiskiskipin færri og eldri

Deila:

Tölur um fiskiskipastólinn á undanförnum árum endurspegla vel hvaða þróun hefur átt sér stað. Fiskiskipum í heild hefur fækkað, sama til hvaða skipaflokks er litið. Meðalaldur fiskiskipanna hefur á sama tíma hækkað umtalsvert en hins vegar gerðist það í fyrsta skipti á síðustu 18 árum að milli áranna 2015 og 2016 stóð meðalaldurinn í stað. Nýju skuttogararnir sem eru að koma til landsins í ár ættu líkast til að hafa þau áhrif að þróunin í aldri skipastólsins snúi við í fyrsta skipti í langan tíma.

Opnum bátum fækkað um fjórðung

Skráð fiskiskip á Íslandi voru á árinu 2016 1.647 talsins. Árið 1999 voru þau hins vegar 1.976. Á þessu tímabili urðu þau flest árið 2001 eða 2.012 en þá fylgdi í kjölfarið nokkuð skörp fækkun alveg niður í 1.582 fiskiskip árið 2008. Hægt og bítandi hefur skipunum því fjölgað á nýjan leik. Opnir fiskibátar voru á síðasta ári 857 talsins en voru 1.134 árið 1999. Fækkunin í þessum flokki er 25%. Fæstir urðu opnu fiskibátarnir árið 2008 eða 700 talsins. Vélskip voru á síðasta ári 747 og þessi flokkur sker sig talsvert úr vegna þess að þetta er nánast sami fjöldi og var árið 1999, þá 751 vélskip skráð. Þau urðu flest rösklega 870 árið 2002 en hefur síðan fækkað jafnt og þétt. Stærstu breytinguna má sjá í flokki togara. Þeir voru 91 talsins árið 1999 en hins vegar aðeins 43 í fyrra. Aðeins einu sinni á þessu tímabili fjölgaði togurum milli ára, þ.e. um eitt skip milli áranna 2006 og 2007.

Fjölgun fiskiskipa á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra

Á umræddu tímabili, þ.e. frá 1999 til 2016 minnkaði brúttótonnafjöldi fiskiskipastólsins úr röskum 180 þúsund tonnum niður í 151 þúsund tonn og afl aðalvéla í kílóvöttum fór úr 509 þúsund kW í tæplega 454 þúsund kW. Á höfuðborgarsvæðinu voru skráð 128 skip í fyrra en rúmlega tvöfalt fleiri árið 1999, eða 258 fiskiskip. Vesturland hefur hins vegar nánast haldið sínum fjölda, tæplega 300 skipum, þau voru 396 talsins á Vestfjörðum í fyrra sem er fjölgun frá 1999 og enn meiri er fjölgunin á Norðurlandi vestra á þessu tímabili, þ.e. úr 88 í 123 í fyrra. Aftur á móti fækkaði fiskiskipunum á Norðurlandi eystra úr 292 árið 1999 í 224 árið 2016, sömuleiðis á Austfjörðum þar sem þau voru 243 í fyrra en 288 árið 1999. Veruleg breyting hefur orðið á Suðurlandi á þessu árabili, eða fækkun fiskiskipa úr 140 í 80 í fyrra og sömu sögu er að segja um Suðurnes þar sem fiskiskipunum fækkaði úr 229 í 159 í fyrra.

Meðalaldur hækkað um áratug frá 1999

Fjöldi nýsmíða í fiskiskipastólnum þessi misserin kemur ekki á óvart þegar skoðaðar eru tölur um þróun í meðalaldri hans frá árinu 1999. Á tímabilinu hækkaði meðalaldurinn um heilan áratug, litið til allra fiskiskipa eða úr 19 árum að meðaltali árið 1999 í 29 ár árið 2016. Meðalaldurinn stóð í stað milli áranna 2015 og 2016, sem endurspeglar áhrif endurnýjunar fiskiskipanna og tilkomu nýsmíða og yngri skipa í stað þeirra eldri. Opnir fiskibátar voru að meðalztali 31 árs í fyrra en meðalaldur þeirra var 17 ár árið 1999. Hækkun meðaldurs vélskipa hefur verið hægari á tímabilinu, farið úr 20 árum árið 1999 í 26 ár í fyrra. Togaraflotinn endurspeglar einnig meiri endurnýjun á síðari árum og þannig stóð hann í stað þrjú ár í röð, þ.e. árin 2014-2016 þegar hann var 30 ár. Meðaldur togara var hins vegar 20 ár árið 1999. Viðsnúningur í þessum flokki fiskiskipa ætti að verða mjög greinilegur þegar nýju togararnir koma hver af öðrum til landsins í ár.

Deila: