Framkvæmdir við Miðgarð að hefjast

Deila:

Framkvæmdir við nýjan Miðgarð í Grindavíkurhöfn hefjast innan skamms en í fyrsta verkhluta verður rekið niður 250 metra stálþil framan núverandi stálþils. Þetta er framkvæmd sem beðið hefur verið eftir alllengi hjá Grindavíkurhöfn og skiptir verulegu máli fyrir þjónustu hafnarinnar enda fjórðungur af viðlegurými hennar. Þrjú tilboð bárust í verkið þegar það var boðið út fyrir áramót og segist Sigurður Arnar Kristmundsson, hafnarstjóri í Grindavík, vera mjög ánægður með niðurstöðu útboðsins.

Hagstætt tilboð

„Á grundvelli tilboðs var gengið til samninga við fyrirtækið Hagtak hf. í Hafnarfirði en tilboð þeirra var rösklega 70% af kostnaðaráætlun þessa verkáfanga, um 270 milljónir króna,“ segir Sigurður Arnar. Auk þess að reka stálþilið niður tilheyrir jarðvegsfylling að þilinu einnig þessum verkáfanga en gengið er út frá að honum verði lokið í haust. Síðari hluti verksins verður síðan steypa á þekju bryggjunnar en ekki er orðið ljóst hvort farið verður í þann verkþátt í beinu framhaldi. Tryggja þarf að landfylling hafi sigið að fullu áður en þekjan verður steypt.

„Miðgarður er, ef svo má segja, hjartað í höfninni hjá okkur. Bryggjan er miðsvæðis og nýtist okkur bæði við afgreiðslu á fiskiskipum og flutningaskipum en raunar höfum við þjónustað flutningaskipin á öðrum stað í höfninni vegna þess að Miðgarður var orðinn úr sér genginn. Nýja bryggjan mun því skipta miklu fyrir þjónustu Grindavíkurhafnar til framtíðar og mæta þeim kröfum sem gerðar eru til hafnarþjónustu í dag,“ segir Sigurður Arnar.

Tekur við djúpristum skipum

Auk stálþilsins, jarðvegsfyllingar og þekju tilheyrir dýpkun í höfninni þessari framkvæmd í heild en áætlað er að kostnaðar nemi yfir milljarði króna þegar upp verður staðið. Stefnt er að því að ná 8 metra dýpi við viðlegukantinn og þannig geta stærstu skip lagst að bryggjunni. Þá er miðað við að hitakerfi verði í þekju Miðgarðsbryggju og að þær útgerðir sem það vilja geti tengst hitaveitu á bryggjunni. Nýjasta tækni í landtengingum og eftirlitsbúnaði með rafmagnsnotkun skipa er einnig í farvatninu tengt þessari framkvæmd en allt miðar þetta að því að nýta orku á bæði hagkvæmasta hátt og með sem minnstum umhverfisáhrifum. Gengið er út frá að framkvæmdatíminn í heild verði 2-3 ár að meðtöldum dýpkunarframkvæmdum en næstu vikur og mánuði segir Sigurður Arnar að búast megi við þrengslum í höfninni. „Framkvæmdirnar munu hafa sín áhrif meðan á stendur,“ segir hann.

Mikið fiskirí en lágt fiskverð

Eftir rólega byrjun á árinu í Grindavíkurhöfn, líkt og flestum öðrum fiskihöfnum landsins, fóru hjólin að snúast á fullri ferð þegar sjómannaverkfallinu lauk. Fiskiríið hefur síðan þá verið með afbrigðum gott og segir Sigurður Arnar að á köflum láti nærri að skip þurfi að bíða löndunar.

„Verkfallið hafði að sjálfsögðu áhrif meðan á stóð og einnig í haust þegar í það stefndi. Á þeim árstíma sem verkfallið stóð landa bátar héðan gjarnan annars staðar og hefja síðan vertíðina hér um mánaðamótin janúar-febrúar. Fyrir rekstur hafnarinnar var því mjög mikilvægt að verkfallið stóð ekki lengur. En hins vegar skynjum við áhrif af lágu fiskverði á mörkuðum síðustu vikur. Það hefur áhrif á útgerðarmynstur bátanna. Sumir fara sér hægar núna vegna þessarar stöðu,“ segir Sigurður Arnar.

Deila: