Vilja nám í fiskeldi til Vestfjarða

Deila:

Sveitarfélagið Vesturbyggð hefur samþykkt að kanna möguleika á að koma á fót námi í fiskeldi og fiskeldisrannsóknum á sunnanverðum Vestfjörðum. Leitað hefur verið til Smára Haraldssonar sem verkefnastjóra til að leiða verkefnið. Smári var til skamms tíma forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða.

Gerður Björk Sveinsdóttir, verkefnastjóri samfélagsuppbyggingar í Vesturbyggð, hefur verið tilnefnd sem fulltrúi sveitarfélagsins í samstarfshóp um verkefnið.  Verkefnið er á byrjunarstigi og gengur það út á að kanna hvort forsendur séu fyrir því að koma á þesskonar námi. Leitað verður eftir samstarfi við fyrirtæki í fiskeldi á svæðinu, Háskólasetur Vestfjarða og Fræðslumiðstöð Vestfjarða.

Vaxtabroddur fiskeldis á Íslandi hefur síðustu ár verið á sunnanverðum Vestfjörðum með öflugum fyrirtækjum eins og Arnarlaxi, Fjarðalaxi og Arctic Fish (áður Dýrfiskur). Tvö fyrrnefndu fyrirtækin sameinuðust á síðasta ári.

Sagt er frá þessu á bb.is

 

Deila: