„Fólk skilið eftir í sárum“

Deila:

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness segir að Alþingi íslendinga og stjórnvöld verði að fara yfir það hvort það sé eðlilegt að menn sem hafi tímabundinn yfirráðarétt yfir sjávarauðlindinni geti tekið stórar ákvarðanir sem varði heilu sveitarfélögin. HB Grandi tilkynnti í gær að félagið hafi ákveðið að hætta botnfiskvinnslu á Akranesi og sameina hana vinnslunni í Reykjavík. Tæplega 100 manns í botnfiskvinnslu á Akranesi verður að líkindum sagt upp.

Vilhjálmur var í morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hann segir að útgerðarmenn geti tekið ákvarðanir sem varði heilu byggðirnar.

„Taka kannski mikla fjármuni út úr greininni og skilja síðan heilu byggðirnar eftir í sárum og fólki í átthagafjötrum. Þetta er eitthvað sem ég tók upp  við þingmenn í gær og ég held að Alþingi Íslendinga og stjórnvöld  verði að fara yfir þessi mál því að það getur ekki verið eðlilegt að menn sem hafa hér tímabundinn yfirráðarétt yfir sjávarauðlindinni geti haft það ægivald og þá segi ég ægivald að skilja hér fólk eftir án þess að hafa neitt lífsviðurværi eins og þessar 100 konur og 10 – 15 karlmenn og skilja síðan sveitarfélagið eftir hér í þessum vanda sem það er í.“

Vilhjálmur segir að hann hafi rætt við sjávarútvegsráðherra sem ætli að taka málið upp á ríkisstjórnarfundi í dag.

„Ég er að vonast til þess að þingheimur og ráðamenn fari ekki að velta því fyrir sér hvort að sé ekki hægt að skerpa þessar línur skerpa þessar línur sem líti að því að þessir menn sem hafa þennan umráðarétt sýni nú samfélagslega ábyrgð gagnvart þeim sveitarfélögum þar sem starfsemin er í gangi. Haraldur Böðvarsson var stofnaður 1906. Það er búið að lifa af sér tvær heimstyrjaldir og núna er fyrirkomulag á stjórnun fiskveiða að verða þess valdandi að þessi starfsemi er að falla hér með þessum hætti.“
Vilhjálmur segir að HB Granda hafi blessunarlega gengið vel allt frá hruni. Þeir hafi skilað yfir 40 milljörðum í hagnað, hafi skilað 3.1 milljarði í hagnað í fyrra. „og eru að greiða arð út  til sinna eigenda upp á 1,8 milljarð núna á þessum dögum. Þess vegna finnst manni það skjóta skökku við að á sama tíma og verið er að greiða tæpa tvo milljarða út í hagnað að þá sé verið að taka lífsviðurværi af fólki sem hefur starfað hjá fyrirtækinu sumir hverjir í um og yfir 50 ár.“

 

Deila: