Ýtt undir notkun á endurnýjanlegri orku

Deila:

Landsvirkjun og Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda (FÍF) hafa tekið höndum saman um að stuðla að aukinni notkun endurnýjanlegrar orku í fiskmjölsiðnaði

Fiskmjölsframleiðendur hafa á undanförnum árum notast bæði við olíu og rafmagn í framleiðslu sinni, en þeir hafa keypt skerðanlegt rafmagn af raforkusölum sem Landsvirkjun hefur selt á heildsölumarkaði. Takmarkað framboð á slíku rafmagni og sveiflukennd eftirspurn hjá fiskmjölsframleiðendum hefur gert að verkum að olía hefur verið nauðsynlegur varaaflgjafi í mjölvinnslunni og komið í stað rafmagns þegar á hefur þurft að halda.

Með viljayfirlýsingu sem Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og Jón Már Jónsson, formaður FÍF, skrifuðu undir í gær er markmiðið að gera fiskmjölsframleiðslu enn umhverfisvænni með því ýta undir notkun rafmagns við vinnsluna og draga þar með úr losun koltvísýrings og styðja um leið við markmið Parísarsamkomulagsins og skuldbindingar Íslands samkvæmt því.

Skrifað var undir yfirlýsinguna í hinu nýuppgerða Marshall húsi við Grandagarð í Reykjavík en húsið var upphaflega byggt sem síldarbræðsla og gegndi því hlutverki í um hálfa öld.

Aukin notkun og vöruframboð til lengri tíma

Landsvirkjun lýsir því yfir að fyrirtækið muni á næstu árum stuðla eins og hægt er að auknu framboði á skerðanlegu rafmagni á heildsölumarkaði, sem mun væntanlega standa fiskmjölsframleiðendum til boða sem og öðrum sem uppfylla skilyrði Landsvirkjunar til kaupa á slíku rafmagni. Framboðið ræðst hins vegar af aðstæðum í vatnsbúskapnum hverju sinni og getur því sætt takmörkunum vegna vatns- eða aflskorts. Olíu þarf því að nota áfram sem varaaflgjafa við fiskmjölsframleiðsluna komi til skerðingar á afhendingu.

Um leið ætlar FÍF að stuðla að því að félagsmenn horfi til þess að gera mjölframleiðsluna enn umhverfisvænni og noti endurnýjanlega orkugjafa í stað annarra mengandi orkugjafa. Stefnir FÍF að því að félagsmenn noti skerðanlegt rafmagn eins mikið og framboð og flutningar á slíku rafmagni leyfir.

Nú er um 75 prósent af orkuþörf fiskmjölsverksmiðja rafvædd og talið er raunhæft að það hlutfall geti farið upp í um 85 prósent. Til þess að ná fullri rafvæðingu þarf hins vegar að koma til veruleg fjárfesting í flutningskerfi raforku í landinu.

Aukinn hvati til rafvæðingar

Í kjölfar yfirlýsingarinnar stefnir Landsvirkjun jafnframt að því að bjóða, þeim sem nota skerðanlegt rafmagn, samninga til lengri tíma en verið hefur, eða frá undirritun og allt til septemberloka 2019 og á samkeppnishæfum kjörum þannig að hvati skapist fyrir fiskmjölsverksmiðjur sem ekki eru þegar rafvæddar til að ráðast í þá fjárfestingu sem til þarf. Á móti skuldbindi verksmiðjurnar sig til að kaupa skerðanlegt rafmagn burtséð frá verðþróun annarra orkugjafa. Aðrir kaupendur rafmagns sem í dag nýta mengandi orkugjafa og uppfylla skilmála Landsvirkjunar um uppsett afl stendur einnig til boða að kaupa skerðanlegt rafmagn af þessari gerð gegnum sölufyrirtæki raforku. Náist ekki markmið viljayfirlýsingarinnar á næstu 12 mánuðum verður hún og markmið hennar endurskoðuð.

„Það er fagnaðarefni að Landsvirkjun geti lagt lóð á vogarskálarnar til að sjávarútvegur á Íslandi geti nýtt betur þau tækifæri sem felast í notkun á endurnýjanlegri orku og minnkað þannig enn frekar losun gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

„Yfirlýsing þessi er stórt skref í þá átt að takast megi að fullnýta þá fjárfestingu í rafvæðingu sem þegar hefur átt sér stað í verksmiðjunum og jafnvel að auka hana eitthvað. Yfirlýsingin gerir það að verkum að félagið getur með góðri samvisku hvatt félagsmenn sína til að nota umhverfisvænt skerðanlegt rafmagn umfram aðra orkugjafa. Það er von okkar að sá andi og þau viðhorf sem höfð voru að leiðarljósi við gerð yfirlýsingarinnar nái líka til annarra aðila sem koma að sölu á rafmagni til verksmiðjanna. Við viljum að lokum þakka Landsvirkjun fyrir góða samvinnu,“ segir Jón Már Jónsson, formaður.

 

 

Deila: