Nánast full vinnsla alla dagana

Deila:

Frystitogarinn Þerney RE er á heimleið eftir veiðar í norsku lögsögunni í Barentshafi og á vertíðarsvæðinu við Lófót. Aflinn er um 1.300 tonn af fiski upp úr sjó eftir rúmar fjórar vikur að veiðum. Að sögn Kristins Gestssonar skipstjóra verður aflanum landað á Eskifirði áður en farið verður norður í Barentshaf að nýju.

,,Þessi veiðiferð verður 38 sólarhringar hjá okkur en við spörum okkur 30 tíma siglingu hvora leið með því að landa á Eskifirði í stað Reykjavíkur. Yfirleitt standa þessar veiðiferðir í Barentshafið yfir í um 40 sólarhringa og það fer jafnan mikill tími í siglingar til og frá veiðisvæðum,“ segir Kristinn í samtali við heimasíðu HB Granda.

Að þessu sinni var Þerney aðallega að veiðum á Fugleyjarbanka utan hvað síðustu 10-11 sólarhringunum var varið til veiða út af Lófót.

,,Aflabrögðin voru nokkuð góð og við náðum nánast að halda uppi fullri vinnslu alla dagana. Það var ekki fiskur úti um allt eins og stundum áður en sá fiskur, sem veiddist, var mjög góður. Það bar lítið á aukaafla með þorskinum og við fengum sáralítið af tegundum eins og ufsa og ýsu. Stundum hefur hlutfall aukaafla verið vandamálið en við megum vera með 30% aukaafla á þorskveiðunum. Því fór fjarri að þessu sinni. Annað, sem var frábrugðið því sem við höfum átt að venjast, er veðráttan. Venjulega höfum við verið mjög lukkulegir með veðrið en nú brá svo við að það var kaldafræsingur flesta daga og síðustu sólarhringana var hrein og klár bræla, 18-25 m/sek,“ segir Kristinn en hann reiknar með að verða í höfn nk. fimmtudagsmorgun.

,,Það verða áhafnaskipti á Eskifirði og stefnt er að brottför úr höfn að kvöldi föstudags. Mér skilst að hugmyndin sé sú að ljúka við að veiða kvótann í norsku lögsögunni,“ sagði Kristinn Gestsson.

 

 

Deila: