„Þetta er alvöru atvinnugrein“

Deila:

„Ég gerði mér ekki grein fyrir stærðargráðunni á þessu“, sagði Katrina Lang frá Eistlandi, einn af þátttakendum í námskeiðinu Nýsköpun í fiskeldi eftir heimsókn í klakstöð Arctic Fish innst í Tálknafjarðarbotni. Umfang greinarinnar og framkvæmda í tengslum við hana koma flestum á óvart. „Maður þarf víst að hafa séð þetta til að trúa því“, sagði annar þátttakandi heimasíðu Háskólaseturs Vestfjarða.

Nemendurnir sem taka þátt í námskeiðinu koma úr Háskólasetrinu, bæði úr námsleiðinni Haf- og strandsvæðastjórnun og Sjávartengdri nýsköpun en í þetta skiptið er einnig óvenju mikill fjöldi gestanema frá útlöndum. Þeir koma aðallega frá landbúnaðarháskólum í Eystrasaltslöndunum og frá samstarfsskóla í Finnlandi. Þessir nemendur hafa mestan áhuga á endurnýtingu vatns, lífrænum síum, og tæknilausnum almennt.

„Magnið af fiski, fóðri og úrgangi fær mann til að gapa. Þetta er alvöru atvinnugrein“ sagði Verena Sandow frá Slésvík-Hotsetalandi. Örn Smárason hjá Arctic Fish leiddi hópinn í gegnum bygginguna og svaraði spurningum nemenda. Það vakti sérstaka athygli hve meðvitaður hann var um framtíðar verðmæti úrgangs, enda er úrgangurinn í raun áburður sem hægt er að nýta í stað þess að láta fara til spillis.

Fyrr um daginn kom Valgeir Ægir Ingólfsson frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða inn á námskeið og gaf yfirlit yfir þróun fiskeldis og mikilvægi þess fyrir Vestfirði, og þá sérstaklega fyrir sunnanverða Vestfirði.

Næstu daga heimsóttu nemendurnir Arnarlax, sem tekur á móti nemendahópnum í klakstöðinni á Gileyri, í kvíunum í Arnarfirði og í sláturaðstöðu fyrirtækisins. „Sunnanverðir Vestfirðir eru einstakir fyrir námskeið á borð við þetta þar sem hægt er að kynnast fiskeldisferlinu allt frá eggjum til slátrunar. Ekki spillir svo að veðri leikur við Tálknfirðinga og gesti þeirra þessa dagana,“ segir á heimasíðunni.

 

Deila: