Vettvangsskóli á Reykhólum sökkvir sér í sjávargróður

Deila:

Vettvangsskóli Háskólaseturs Vestfjarða og Nordplus-samstarfsnetsins SuWaCo (Sustainable Waters and Coastal Bodies) heimsótti Reykhólasveit fyrir helgi. Í vettvangsskólanum fást nemendur við nýsköpunarverkefni sem tengjast hafinu á einn eða annan hátt. Eðlilega beindust sjónir nemenda einkum að sjávargróðri enda eru Reykhólar höfuðstaður nýtingar þangs og þara á Íslandi.

Nemendurnir unnu í heila viku undir handleiðslu Maríu Maack á Reykhólum að nýtingu sjávargróðurs og opnuðust augu þeirra fyrir ýmsu sem er lítið sem ekki notað í dag. Eitt verkefni snerist um „af-feitun“ skólps með hjálp þörunga, annar hópur þróaði hugmynd um ráðgjafafyrirtæki til að leiðbeina bændum og sveitarfélögum varðandi notkun þörunga til að uppfylla staðla Evrópusambands um skólp. Enn annar hópur vann að hugmynd um fyrirtæki sem sem myndi framleiða einnota hnífapör úr agar sem unnið er úr þangi.

Vettvangssskólinn er hluti af Nordplus-samstarfsneti SuWaCo (Sustainable Waters and Coastal Bodies), þar sem, auk Háskólaseturs Vestfjarða, taka þátt fagháskólinn Novia i Finnlandi, Eesti maaülikool, sem er Landbúnaðarháskóli Eistlands, Aleksadras Stulginskis-háskóli í Litháen og landbúnaðarháskóli Lettlands.

Þessi vettvangsskóli bar nafn með rentu, þrátt fyrir árstíma því nemendur vörðu stórum hluta tímans á vettvangi eða öllu heldur út við ströndinnni og á leirunum, sem sannarlega nóg er af á Reykhólum. Auk þess voru fyrirtæki heimsótt og fóru nemendur m.a. til Hólmavíkur og á Drangsnes. Hefðbundin kennsla fór svo fram í Sjávarsmiðjunni á Reykhólum. Nemendur snæddu hádegismat í Reykhólaskóla og höfðu orð á því hve skemmtilegt var að vera þar í mat þar sem allir samfélagshópar koma saman.

 

Deila: