Nýja frystihúsið hefur gjörbreytt fyrirtækinu til hins betra

Deila:

Nýtt uppsjávarfrystihús Eskju á Eskifirði hefur sannað sig, en í því hefur verið fryst norsk-íslensk síld og loðna með góðum árangri. Sjómannaverkfall í janúar setti nokkuð strik í reikninginn hjá þeim, en óvæntur loðnukvóti skilaði Eskju miklu hráefni til vinnslu.

Páll Snorrason Eskju

„Nýja uppsjávarfrystihúsið var tekið í notkun í nóvember á síðasta ári. Þá byrjuðum við á að vinna norsk-íslenska síld, sem nýja skipið okkar Aðalsteinn Jónsson aflaði. Við byrjuðum á heilfrystingu og það gekk bara nokkuð vel í upphafi. Auðvitað þurfti að stilla búnað og ná tökum á nýrri vinnslu, en frystingin gekk vel og við frystum um 2.800 tonn. Svo kom sjómannaverkfall en þá áttum við 2.400 tonn af íslenskri síld, sem við tókum í skiptum fyrir þorsk. Hana ætluðum við að vinna í kjölfar norsk-íslensku síldarinnar og flaka þá síld. Það náðist ekki sökum sjómannaverkfallsins,“ segir Páll Snorrason, framkvæmdarstjóri fjármála- og rekstrarsviðs Eskju.

Óvænt loðnuvertíð

„Svo kemur þessi óvænta loðnuvertíð og norsku skipin komu til veiða hér. Við byrjuðum að bjóða í þann afla og það var bara virkilega ánægjulegt og gaf okkur tækifæri á prófa húsið enn betur og afkastagetu þess við flokkun og frystingu á loðnu. Við náðum töluverðum árangri og náðum að nýta þessa fáu daga sem við fengum og tókum á móti 8.200 tonnum af loðnu af norsku skipunum og frystum töluvert af því. Undir lok þess tíma vorum búnir að ná upp töluverðum afköstum og náðum að frystistoppi sem er markmiðið, því þá er verksmiðjan fullnýtt. Frystarnir eru flöskuhálsinn í verksmiðjunni. Þessi verksmiðja á að geta fryst 900 tonn af loðnu á sólarhring. Við snérum okkur síðan að eigin hráefni, sem við frystum. Í lok vertíðarinnar tók svo við hrognavinnsla og frystum við þau í verksmiðjunni.“

Eskja norski flotinn

Afkoman þokkaleg

Páll segir að afkoman af loðnuvinnslunni sé alveg þokkaleg þrátt fyrir að gengið spili þar stórt hlutverk. Þá hafi afurðaverð í mjöli og lýsi lækkað verulega á sama tíma, mest vegna mikils framboðs bæði héðan og frá Suður-Ameríku. Kolmunnakvótinn sé mikill og töluvert var framleitt af loðnumjöli, sem fellur til við hrognaskurð. Þetta komi allt inn á markaðinn á sama tíma en hann sé viðkvæmur fyrir óvæntu auknu framboði.

Vel hafi gengið að frysta og mestur hluti þess sé seldur fyrir utan hrogn. Verið sé að vinna í sölu þeirra, sem sé hefðbundinn gangur eftir vertíð. Það taki  einhverjar vikur eða mánuði að ná samkomulagi um verð við kaupendur. „Við verðum því að bíða eitthvað lengur til að sjá hvernig afkoman af þessu verður þegar upp er staðið. Loðnuna frystum við fyrir markaðinn í Japan og hrognin sömuleiðis og fyrir aðra markaði í Asíu. Mjöl og lýsi er svo að mestu leyti selt til Noregs í fiskeldi þar,“ sagði Páll

Kolmunninn að taka við

Þegar rætt var við Pál voru öll skip Eskju í landi eftir eina veiðiferð á kolmunnaslóðina við suður við Rockall. „Við eigum miklar heimildir í kolmunna en misstum út góðan mánuð á kolmunnaveiðum vegna sjómannaverkfallsins í janúar. Við þurfum því að hafa okkur alla við að veiða kolmunnakvótann okkar í ár. Nú náðu skipin ekki öll fullum túr. Aðalsteinn Jónsson II náði reyndar að fylla sig en ekki Aðalsteinn Jónsson og Jón Kjartansson. Við erum núna að vinna um 4.000 tonn af kolmunna af okkar eigin skipum í mjöl og lýsi,“ sagði Páll.

Kolmunninn er núna genginn inn í írsku lögsöguna og þar mega íslensku skipin ekki veiða. Þess er því beðið, að hann gangi norður úr henni, inn á alþjóðlegt hafsvæði þar fyrir norðan og inn í lögsögu Færeyja, þar sem íslensku skipin mega stunda veiðarnar. Þá mun taka við kolmunnaveiði fram að áliðnu sumri.

Afköstin eru mikil

Páll segir að ástæðan fyrir því að Eskja fór út í það verkefni að reisa verksmiðju fyrir frystingu á uppsjávarfiski og kaup skip til að afla hráefnis fyrir hana, sé að breyta viðskiptamódeli sínu til að fá meiri verðmæti út úr aflaheimildum sínum. „Með þessu erum við að bregðast við þeim aðstæðum, sem eru á mörkuðum fyrir afurðir úr uppsjávarfiski, en þær kalla á meiri gæði afurðanna. Við erum að frysta í þessu nýja húsi í snertilausum frystum, þar sem hráefnið er ekki pressað eins og í hefðbundnum plötufrystum. Þetta er ný tegund af frystum sem Skaginn á Akranesi hefur verið að þróa og selja. Fyrir vikið er hráefnið betra og auk þess er fryst á aðeins þremur og hálfum tíma, sem telst stuttur frystitími.

Við eigum að geta keyrt í gegnum húsið yfir 600 tonn af afurðum úr makríl og síld, sem er gríðarleg viðbót við það sem við höfðum í frystiskipinu okkar, Aðalsteini Jónssyni. Þar náðum að frysta upp í um 100 tonn á sólarhring. Þetta gerir það að verkum að við getum skipulagt veiðarnar okkar á makríl og síld betur, að taka okkar kvóta þegar hráefnið er betra þegar líður á haustið. Þá getum við tekið okkar aflaheimildir á styttri tíma og það skilar einnig hærra verði fyrir afurðirnar.“

Vantar heimildir í íslenskri síld

Eskja hefur ekki heimildir í Íslenskri síld ferill ársins er sá að yfirleitt er byrjað í kolmunna í janúar meðan verið er að mæla loðnustofninn. Svo er strax farið á loðnu ef kvóti verður gefinn út á hana. Þá standa loðnuveiðar fram í miðjan mars. Síðan fara skipin yfirleitt beint á kolmunna aftur í alþjóðasjónum áður en kolmunninn gengur inn í írsku lögsöguna. Eftir það hefur verið gríðarlega góð kolmunnavertíð í apríl og maí og fram í júní og jafnvel júlí og hér árum áður inni í íslensku lögsögunni en undanfarin ár hefur kolmunni ekki veiðst á þeim slóðum. Makrílvertíðin hefst síðan í ágúst og síðan er farið á norsk-íslenska síld í kjölfar þess. Væri fyrirtækið með heimildir í íslenskri síld væri hún tekin í lok ársins.

„Við erum verulega stoltir af uppsjávarfrystihúsinu okkar. Það hefur gjörbreytt fyrirtækinu til hins betra. Með því að leggja af bolfiskvinnsluna hjá okkur í Hafnarfirði erum við að einfalda hjá okkur reksturinn og leggja meiri áherslu á uppsjávarfiskinn. Við munum samt gera bátinn okkar, Hafdísi, út til að taka botnfiskveiðiheimildir og selja aflann á fiskmörkuðum eða í beinum viðskiptum eftir því sem verkast vill,“ segir Páll Snorrason.

 

Tekið á móti 28.000 tonnum af loðnu

,,Þessi loðnuvertíð gekk mjög vel hjá Eskju. Aðalsteinn Jónsson kom inn til löndunar með síðustu hrognaloðnuna þann 14 mars síðastliðinn. Okkar skip fiskuðu tæp 23 þúsund tonn allt í allt á vertíðinni og var Aðalsteinn Jónsson með um 10,5 þúsund tonn af því, Jón Kjartans 9 þús tonn og Aðalsteinn Jónsson II 3,5 þúsund tonn en hluta aflans lönduðum við hjá HB Granda á Vopnafirði í samstarfi við þá. Þar að auki landaði grænlenska skipið Qavak 1.450 tonnum af hrognaloðnu og Norðborg frá Færeyjum landaði rúmlega 1000 tonnum í uppsjávarfrystihúsið okkar. Norsku skipin lönduðu um 8,2 þúsund tonnum hjá okkur á meðan á verkfallinu stóð. Á Eskifirði tókum við á móti um 28 þúsund tonnum af loðnu á vertíðinni sem var ýmist fryst í nýju uppsjávarfrystihúsi félagsins, brædd í mjöl- og lýsisvinnslunni eða unnin úr henni hrogn. Þannig við erum mjög ánægð með vertíðina.“

Eskja verksmiðja síld

Viðtalið birtist fyrst í Ægi, sem er nýkominn út.

Myndirnar tóku Atli Börkur Egilsson og Hlynur Ársælsson.

 

Deila: