Opnað eftir páskastoppið

Deila:

,,Það hefur lítið reynt á aflabrögðin ennþá enda var svæðið hér ekki opnað aftur fyrir veiðum fyrr en kl. 10 í morgun eftir veiðibannið sem kennt er við páskana eða hrygningu þorsksins. Við erum þó búnir að taka eitt hol og aflinn var ágætur, mest ufsi en einnig dálítið af þorski og ýsu.“

Þetta sagði Heimir Guðbjörnsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Helgu Maríu AK, er rætt var við hann á heimasíðu HB Granda nú um miðjan dag en togarinn var þá á sínu öðru holi á Selvogsbankanum.

Að sögn Heimis hafa togararnir verið að veiðum sunnan eða vestan við bannsvæðið að undanförnu utan hvað ísfisktogarar HB Granda fóru í síðasta túr allir á Vestfjarðamið.

,,Ég var reyndar í fríi en þetta var í fyrsta skipti á árinu sem togararnir fara norður á Vestfjarðamið. Þeir voru mest að þorsk- og ufsaveiðum á Halanum en ég veit að Helga María fékk einnig ágætt af gullkarfa í Víkurálnum í síðustu veiðiferð,“ segir Heimir en hann segir að sér lítist mjög vel á ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunar.

,,Ástandið á helstu nytjastofnum virðist vera mjög gott og ég vona að þess sjáist merki í aukningu kvótans fyrir næsta fiskveiðiár,“ segir Heimir Guðbjörnsson.

 

 

Deila: