„Við látum ekki kyrrt liggja“

Deila:

„Þetta er mikill gleðidagur fyrir okkur og mér er efst í huga hve starfsfólkið hefur staðið þétt með okkur,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri útgerðarfyrirtækisins Samherja, en í gær felldi Héraðsdómur Reykjavíkur úr gildi 15 milljóna króna stjórnvaldssekt sem Seðlabankinn lagði á fyrirtækið fyrir brot á gjaldeyrislögum. Seðlabankanum er gert að greiða allan málskostnað, 4 milljónir króna.

Þorsteinn Már mynd 2

„Þetta er ótrúlega ljótt mál. Það er sárt að sjá hvernig stjórnsýslan í þessu máli hefur verið frá upphafi. Menn hafa fengið mörg tækifæri til að láta staðar numið, en ekki gert það. Allt framferði Seðlabankans í þessu máli hefur miðað að því að valda okkur sem mestum skaða. Þannig var búið að senda tilkynninguna um húsleit hjá okkur út um allan heim klukkustund eftir að hún var framkvæmd,“ segir Þorsteinn í samtali við Morgunblaðið í dag.

„Í stað þess að setjast niður með okkur og ljúka þessu máli eins og við höfum margsinnis farið fram á hafa Seðlabankamenn stöðugt komið fram með nýjar og nýjar ásakanir þegar einum hefur verið hrint. Verst hafa verið þau vinnubrögð þeirra að halda gögnum frá okkur þannig að það hefur tekið okkur langan tíma að bregðast við,“ segir hann.

Aðspurður hvort Samherji hyggist aðhafast eitthvað gagnvart Seðlabankanum eftir dóminn segir Þorsteinn Már: „Við látum ekki kyrrt liggja.“ Hann segir að ekki sé við öðru að búast en að fyrirtækið muni setja fram skaðabótakröfu. Menn hafi þurft að axla ábyrgð fyrir minni sakir. Samherji hafi þegar kært ákveðna starfsmenn Seðlabankans til lögreglu.

„Það er ákveðin klíka innan bankans sem hefur rekið þetta mál af ótrúlegum fantaskap,“ segir hann.

Málið hefur staðið í fimm ár. Það hófst með húsleit Seðlabankans hjá Samherja árið 2012. Seinna tók sérstakur saksóknari við málinu. Tvö ár eru liðin síðan hann ákvað að fella niður sakamál vegna þessara meintu brota. Seðlabankinn ákvað þá að beita stjórnvaldssektum upp á 15 milljónir króna. Héraðsdómur segir að Seðlabankinn hafi ekki með neinum hætti sýnt fram á við meðferð málsins á hvaða grundvelli honum hafi verið heimilt að taka málið upp að nýju.

Ríkt tilefni til rökstuðnings

„Í málinu hefur ekkert komið fram um að ákvörðun [Seðlabanka Íslands] um að hefja meðferð máls [Samherja] að nýju, sem tilkynnt var með bréfi [Seðlabanka Íslands] 30. mars 2016, hafi byggt á nýjum gögnum eða vísbendingum um að slík gögn kynnu síðar að koma fram við frekari rannsókn málsins,« segir meðal annars í niðurstöðu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur.

Að mati dómsins var hins vegar „ríkt tilefni til slíks rökstuðnings“, einkum vegna „þess verulega dráttar“ sem orðið hafði á meðferð málsins hjá Seðlabankanum.

Þá segir einnig í niðurstöðum að Seðlabankinn hafi „ekki með neinum hætti sýnt fram á við meðferð máls þessa fyrir dómi á hvaða grundvelli heimilt var að taka mál [Samherja] upp að nýju með vísan til ákvæða 24. gr. stjórnsýslulaga eða almennra reglna stjórnsýsluréttar, eins og þær horfa við rannsókn mála og töku ákvarðana um refsikennd viðurlög á grundvelli þeirra heimilda sem stjórnvöldum eru veittar með lögum. Verður þegar af þessari ástæðu að fallast á kröfu [Samherja] um að áðurlýst ákvörðun [Seðlabanka Íslands] 1. september 2016 verði felld úr gildi.“

Deila: