Aðför að sjálfstjórn sveitarfélaga

Deila:

Ísafjarðarbær ætlar að taka þátt í mótmælum sveitarfélaga gegn frumvarpi til laga um skipulag haf- og strandsvæða, verði það  í óbreyttri mynd. Hópur sveitarfélaga ætlar að mótmæla frumvarpinu og verður sent sameiginlegt bréf til Bjartar Ólafsdóttur umhverfisráðherra þar sem fram kemur að frumvarpið sé aðför að sjálfstjórn sveitarfélaga og forræði þeirra í skipulagsmálum.

Frumvarpið leggur til að ráðherraskipuðum svæðisráðum verði falin ábyrgð á skipulagsgerð strandsvæða, í stað sveitarfélaganna sjálfra. Ber svæðisráðunum einungis að taka tillit til skipulagsáætlana þeirra sveitarfélaga sem eiga í hlut. Í bréfinu kemur fram að það sé með ólíkindum að einn af ráðherraskipuðum fulltrúum hefur neitunarvald í svokölluðu svæðisráði en sveitarfélögin ekki, þrátt fyrir að hagsmunir þeirra séu hvað mestir þegar kemur að skipulaginu.

Það er tekið undir það sjónarmið ríkisvaldsins að skipulagsskylda haf- og strandsvæða utan netlaga verði bundin í lög, ekki hvað síst með hliðsjón af vaxandi umsvifum á strandsvæðum, s.s. vegna fiskeldis og siglinga farþegaskipa. Á það er bent að Sveitarfélögin verða að koma beint að þessu borði á strandsvæðunum sjálfum, enda mikið í húfi fyrir þau að vel takist til í skipulagi mála á svæðum er varða beinlínis þeirra efnahags- og samfélagsmál.

Þá segir í bréfinu til ráðherra að það sé sérstaklega ámælisvert að í frumvarpinu er ekki skilið á milli skipulags hafsvæða, sem vera ætti á hendi ríkisins, og skipulags strandsvæða, sem vera ætti á hendi sveitarfélaga.
Mynd og texti af bb.is

 

Deila: