Fljótleg fiskisúpa

Deila:

Fátt er betra en góð fiskisúpa. Hún getur hvort sem er verið aðalréttur eða forréttur, en þessi stendur alveg undir flottum aðalrétti. Matarmikil og góð. Svona súpu finnst okkur gott að hafa á þægilegu og rómantísku síðkvöldi og njóta vel saman. Hollustan er ótvíræð og bragðið ekki síðra.

Innihald:

600 g hvítur fiskur (lúða eða ýsa)
12 humarhalar
1 ½  dl hvítvín
5 dl vatn
4 vorlaukar
3 gulrætur
1 kúrbítur
2 msk matarolía
fiskkraftur (teningur eða duft)
2 dl rjómi
salt og pipar
1-2 msk koníak (má sleppa)

Aðferð:

Hreinsið fiskinn og skerið hann í bita. Takið humarinn úr skelinni og hreinsið.
Hleypið upp suðu á hvítvíni og vatni og setjið fisk og humarhala ofan í. Sjóðið í tvær mínútur. Færið fiskinn og humarhalana síðan upp úr soðinu.
Skerið vorlauka í sneiðar og gulrætur og kúrbít í teninga. Hitið olíu í potti og mýkið grænmetið.
Hellið fisksoðinu út í ásamt fiskkrafti. Bætið rjóma saman við og hleypið upp suðu. Bragðbætið með salti og pipar og ef til vill koníaki.
Setjið fiskbitana og humarhalana út í súpuna, hitið að suðu. Skreytið með ferskum kryddjurtum að vild.
Berið fram með hvítvíni og brauði.

Deila: