Strandveiðum lokið á svæði A

Deila:

Strandveiðum á svæði A í maí er nú lokið, þó þrír dagar séu eftir af veiðitímabilinu. Bátar á svæðinu eru nú komnir með 903 tonn, sem er 51 tonni umfram leyfilegt hámark sem er 852 tonn. Veiðar hafa almennt gengið vel, en miðað við að þrír veiðidagar eru eftir í mánuðinum, er líklegt að ekki náist að veiða upp í hámarkið á hinum þremur svæðunum.

Reglur strandveiðanna eru á þann hátt, að þegar fyrirséð er að leyfilegum heildarafla verði náð, er stöðvun veiða boðuð. Fari afli yfir hámarkið dregst sá afli frá á næsta tímabili, en náist hann ekki, bætist mismunurinn við heimildir þess næsta.

Eins og fyrr sagði er aflinn á svæði A, frá Snæfellsnesi vestur á Firði, orðinn 903 tonn. 199 bátar hafa landað þessum afla eftir 1.412 róðra. Meðalafli í róðri er 640 kíló og meðalafli á bát á tímabilinu 4,7 tonn.

Á svæði B, fyrir Norðurlandi, er aflinn orðinn 345 tonn og eru óveidd 176 tonn, sem er 34% leyfilegs heildarafla. 101 bátur hefur farið í 602 róðra og er meðalafli í róðri 573 kíló og meðalafli á bát er 3,4 tonn.

Á svæði C, fyrir Austfjörðum, er aflinn orðinn 280 tonn. Þar hefur 71 bátur landað úr 461 róðri í maí. Meðalafli í róðri er 608 kíló og afli á bát að meðaltali 4 tonn. Bátarnir fyrir austan eru búnir með rétt ríflega helming leyfilegs heildarafla í mánuðinum.

Fyrir Suðurlandi, á svæði D, er aflinn orðinn 306 tonn, sem er rétt ríflega helmingur leyfilegs heildarafla. Þar hefur 91 bátur landað samtals 502 sinnum. Afli í róðri er að meðaltali 609 kíló og afli á bát að meðaltali 3,4 tonn.

 

Deila: