Einn fullkomnasti flakafrystitogarinn smíðaður fyrir HB Granda

Deila:

Skrifað hefur verið undir samning vegna smíði á 81,30 metra löngum og 17,00 metra breiðum frystitogara fyrir HB Granda við spænsku skipasmíðastöðina Astilleros Armon Gijon. Samingsverðið er 44.327.000 EUR eða jafnvirði 4,9 milljarða íslenskra króna. Afhending togarans er áætluð um mitt ár 2019 en stefnt er að því að skipið verði þá stærsti og einn fullkomnasti flakafrystitogarinn sem gerður verður út við norðanvert Atlantshaf.

Það var Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, sem skrifaði undir samninginn af hálfu félagsins sl. föstudag auk fulltrúa spænsku stöðvarinnar sem staðsett er á Norður-Spáni. Byrjað verður á smíðinni um miðjan september nk. þannig að smíðatíminn verður tæplega tvö ár.

Að sögn Rafns Haraldssonar verkefnisstjóra hjá HB Granda er skipið, sem verður um 5.000 brúttótonn að stærð, hannað af Rolls-Royce sem m.a. á Hydraulic Brattvaag í Noregi. Hönnun þess tekur mið af orkusparnaði bæði á veiðum og á siglingu og verður skrúfan 4,00 metrar í þvermál. Aðalvélin verður af gerðinni Bergen-Diesel og er afl hennar 5400 kW. Skipið verður búið öflugu rafvindukerfi frá Rolls-Royce og verður rafmagn fyrir vindurnar og annan búnað framleitt með ásrafali. Fullkomnasti búnaður til flökunar og frystingar verður í skipinu og er framleiðslugetan áætluð rúm 100 tonn á sólarhring. Þá verður fiskmjölsverksmiðja um borð fyrir ýmislegt sem fellur til við flakavinnsluna og verður afkastageta hennar um 50 tonn á sólarhring. Í frystilestum verður rými fyrir allt að 1.000 tonn af afurðum, flokkuðum á brettum.

Meðfylgjandi mynd er frá undirskrift samningsins.
 

 

Deila: