Kolmunnakropp í Rósagarðinum
Nú hafa íslensku skipin hætt kolmunnaveiðum í færeysku lögsögunni og eru farin að reyna fyrir sér í Rósagarðinum. Í yfirstandandi veiðiferð tók Beitir NK eitt 290 tonna hol í færeysku lögsögunni en eftir að hafa leitað nokkuð þar var haldið í Rósagarðinn.
Herbert Jónsson stýrimaður á Beiti segir að í Rósagarðinum hafi verið kropp í gær en lítið sé hins vegar að sjá í dag. „Við tókum eitt 290 tonna hol í gærkvöldi eftir að hafa togað í 14 tíma. Það voru einhverjir blettir hérna og þetta reyndist vera mun stærri og betri fiskur en var að fást í færeysku lögsögunni,“ sagði Herbert í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar í gær.
Runólfur Runólfsson skipstjóri á Bjarna Ólafssyni AK tók undir með Herbert og sagði að dálítið hefði verið að sjá í Rósagarðinum í gær en lítið í dag. „Ég held að þetta sé búið við Færeyjar. Við tókum þar eitt hol og fengum 200 tonn. Síðan héldum við í Rósagarðinn og erum búnir að taka þar eitt hol; 270 tonn eftir 15 tíma. Það væri afar gott ef kolmunninn gæfi sig hér í íslensku lögsögunni, það er býsna langt að þurfa að sækja hann í færeysku lögsöguna,“ sagði Runólfur.
Auk Beitis og Bjarna Ólafssonar voru Víkingur og Hoffell að veiðum í Rósagarðinum í morgun en Venus er nýlega lagður af stað í land.
Ljósmynd Hákon Ernuson.