Fellst ekki á kvíar út af Arnarnesi
Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar fellst ekki á eldiskvíar út af Arnarnesi, rétt við mynni Skutulsfjarðar. Arctic Sea Farm hefur sótt um 7.600 tonna laxeldisleyfi í Ísafjarðardjúpi og samkvæmt umsókninni verða kvíar meðal annars staðsettar út af Arnarnesi.
Í umsögn hafnarstjórnar segir að staðsetningin skerði aðkomu stærri skipa að Skutulsfirði auk þess að þrengja athafnasvæði skipa og þá fyrst og fremst stærri skipa eins og skemmtiferða- flutninga og olíuskipa. „Nú þegar eru eldiskvíar á Skutulsfirði sem gera stærri skipum erfitt fyrir á akkerislægi vegna minna athafnarýmis og ekki verður við það unað að skerða aðkomu að siglingaleið meira en orðið er,“ segir í umsögninni.
Samkvæmt matsáætlun fyrirtækisins er gert ráð fyrir að ala lax á þremur svæðum í Ísafjarðardjúpi; við Arnarnes, við Sandeyri á Snæfjallaströnd og í Skötufirði. Fyrirtækið er nú þegar með 4.000 tonna leyfi til að ala regnboga við Sandeyri. Frá þessu er sagt á fréttavefnum bb.is