Veiðigjald verði í eðlilegu hlutfalli við afrakstur veiðanna

Deila:

Hin nýja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar telur kosti kvótakerfisins mikilvæga, en að kanna þurfi kosti annarra leiða svo sem markaðstengingu veiðigjalds. Viðreisn mun fara með ráðuneyti sjávarútvegsmála í hinni nýju ríkisstjórn.

„Núgildandi fiskveiðistjórnarkerfi hefur skilað miklum þjóðhagslegum ávinningi. Mikil hagræðing hefur átt sér stað í sjávarútvegi um leið og tekist hefur að tryggja sjálfbærni fiskveiða á Íslandsmiðum. Þá hefur öryggi sjómanna aukist til muna. Ríkisstjórnin telur kosti aflamarkskerfisins mikilvæga fyrir áframhaldandi verðmætasköpun í sjávarútvegi. Kannaðir verða kostir þess að í stað ótímabundinnar úthlutunar verði byggt á langtímasamningum og samhliða verði unnið að mati á þeim kostum sem tækir eru, svo sem markaðstengingu, sérstöku afkomutengdu gjaldi eða öðrum leiðum, til að tryggja betur að gjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind verði í eðlilegu hlutfalli við afrakstur veiðanna. Gæta þarf að langtímarekstraröryggi í greininni og stöðugleika í byggðum,“ segir um sjávarútvegsmál í stjórnarsáttmálanum.

Deila: