Afkoman ágæt og veiðiheimildir rúmar

Deila:

„Við sjáum mikla samlegðarmöguleika í sameiningu fyrirtækjanna. Það verður auðveldara að endurnýja atvinnutækin, hvort sem það er á sjó eða í landi og auðveldara er að hagræða í rekstrinum. Við náum að nýta bæði skip og tæki betur en við gerum í sitt hvoru lagi. Við þurfum ekki heldur að endurnýja eins mörg skip og tæki. Auðvitað eiga þessi fyrirtæki nóg af fermetrum í landi og við teljum okkur geta nýtt þá betur en við erum að gera í dag. Ætli þetta sé ekki aðalástæðan fyrir því að við erum að ræða sameiningu fyrirtækjanna.

Til góðs fyrir samfélagið í Grindavík

Það auðveldar hana líka að við erum í sama byggðarlaginu, húsin okkar liggja nánast saman og í einu tilfelli þurfum við ekki meira en að saga gat á vegg til að komast á milli. Að sameina fyrirtæki sem eru hlið við hlið í sama byggðarlaginu hlýtur að vera hægkvæmara en við erfiðari aðstæður. Ég er viss um að samfélagið í Grindavík njóti góðs af þessari sameiningu. Ég held að menn séu frekar kátir með þetta,“ segir Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar hf. Í Grindavík. Þorbjörn og Vísir hf. Í Grindavík hafa boðað sameiningu fyrirtækjanna.

Gunnar segir að bæði fyrirtækin séu mjög vel sett fjárhagslega. Afkoma þeirra sé ágæt og veiðiheimildir séu rúmar. Bæði fyrirtækin með svipaðar heimildir og með sameiningu verði til stærsta fyrirtæki í þorski á landinu, með yfir 22.000 tonna þorskvóta. Samtals verði veiðiheimildir yfir 44.000 tonn.

Línuskipin í höfn.

Betri nýting á skipum og vinnslubúnaði

„Við náum að nýta flotann betur saman. Þorbjörn er með þrjá frystitogara og þrjá stóra línubáta og Vísir 5 stóra línubáta og tvo í krókakerfinu. Við hjá Þorbirni vorum að bæta við okkur frystitogara í vor, sem við keyptum frá Grænlandi og heitir nú Tómas Þorvaldsson. Við höldum útgerðinni á Gnúpnum áfram meðan við erum að koma Tómasi vel fyrir í veiðunum. Gnúpurinn er mjög hagkvæmur í rekstri, ódýrt og öflugt skip. Þá var Hrafn Sveinbjarnarson lengdur og endurbættur fyrir fimm árum. Við munum alla vega halda áfram útgerð tveggja frystitogara, en það er spurning hvort við færum þá út í útgerð eins ísfisktogara í stað frystitogara, þegar lengra líður. Þessi fyrirtæki hafa verið að gera það gott í gegnum tíðina og eiga eftir að gera enn betur eftir sameiningu.“

Gunnar segir að næstu skrefin séu að fara að lögum og reglum um sameiningu fyrirtækja. Fyrst verði að kynna að viðræður um sameiningu séu að hefjast. Leyfi samkeppniseftirlitsins,  það þurfi að fá reglur þess og leiðbeiningar framvindu sameininga. Þegar það sé komið, geti menn farið að taka til hendinni, en það séu einhverjir mánuðir í það, hugsanlega um áramótin.

Gunnar segir að ekki sé að vænta uppsagna vegna þessa. „Við reiknum með að taka okkur um þrjú ár í það að stokka þetta saman og á þeim tíma notum við okkur starfsmannaveltuna, þurfi að fara í einhverjar hagræðingar.

Þorbjörn framleiðir mikið af söltuðum flökum til útflutnings.

Breið vörulína og góðir markaðir

Fyrirtækin tvö eru með nokkuð breiða vörulínu. Bæði fyrirtækin eru í ferskfiski, bæði eru að salta fisk, annað  er að fletja fiskinn og salta en hitt að flaka og salta. Þá er sjófrysting umtalsverð á togurunum. Einnig er eitthvað framleitt af léttsöltuðum frystum fiski líka.  Markaðirnir fyrir saltfiskinn eru Miðjarðarhafslöndin og Portúgal en ferski fiskurinn fer mest til Bretlands, Belgíu og Frakklands og til Bandaríkjanna. Til þessara landa fer eitthvað á hverjum einasta degi. Gunnar segir að markaðirnir séu nokkuð góðir og þeir hafi orðið varir við aukna eftirspurn. Birgðasöfnun sé engin, fiskurinn fari jafnóðum utan.

Fyrirtækin hafa undanfarin ár verið með stærstu sjávarútvegfyrirtækjum landsins og verða það áfram með því að sameinast. Þau fara þó ekki yfir nein mörk í aflahlutdeild.

Þessi róbóti er nýlega byrjaður að vinna í ferskfiskvinnslu Vísis. 

Hvergi meiri skattaáþján

Pólitíska umhverfið hefur ekki verið sjávarútveginum hagstætt. Gunnar segir að hann vonist til að menn átti sig á því að það séu fleiri auðlindir í þessu landi en bara sjávarútvegur, fiskurinn. Ef menn séu sammála um að það eigi að skattleggja auðlindir, verði aðrar auðlindir skattlagðar líka, þó hann sé ekki að tala fyrir skattlagningu. „Ég held að það sé leitun að annarri eins skattaáþján og sjávarútvegur á Íslandi þarf að þola í dag. Hún er mun meiri en í nágrannalöndum okkar. Í Noregi er hvorki auðlindagjald né kolefnisgjald og í Færeyjum er skattlagningin öðruvísi. Þar hafa þeir tekið hluta ákveðinna uppsjávarfiskitegunda og boðið þær upp, en eru ekki með kolefnisgjald eða nein auðlindagjöld á bolfisk til dæmis. Þar er ekkert lagt á þorsk, ýsu og ufsa, en aftur á móti makríl, síld og kolmunna. Þessu er öfugt farið hér á landi, þar sem mest álagning er á bolfisk en minni á uppsjávarfiskinn.“ segir Gunnar Tómasson.
Ljósmyndir Hjörtur Gíslason.

 

Deila: