Nautic með vaxandi umsvif í Rússlandi

Deila:

Eins og þekkt er orðið hefur Nautic gert samninga um hönnum og smíði á 10 stórum vinnslutogurum fyrir stórfyrirtækið Norebo. Smíði á fyrstu skipunum er þegar hafin í Pétursborg og er nú verið að skera niður stál í fjórða skipið og sjósetning fyrsta skipsins væntanleg á fyrsta fjórðungi næsta árs. Samningarnir eru gerðir beint við dótturfélagið Nautic-RUS og samanstendur af fyrirkomulags- og flokkunarfélagsteikningum annars vegar við Norebo og á hinn bóginn vinnuteikningum við Severnaya skipasmíðastöðina. Hönnunarvinnan er langt kominn og uppistöðu þeirrar vinnu lýkur um eða uppúr áramótum. Nautic er með bás á sýningunni Sjávarútvegur 2019, sem hefst á morgun og stendur fram á föstudag.

Nautic og Knarr samsteypan vinna hörðum höndum að því að kynna sína starfsemi víðar en í Rússlandi. Tækifærin í Rússlandi eru mikil og framundan er endurnýjun fiskveiðiflotans í heild sinni, endurúthlutun hluta fiskveiði heimilda, bæði á bolfiski og krabba sem um leið gera kröfur til þarlendra útgerða að endurnýja flota sinn og smíða í Rússlandi. Í þessu felast gríðarleg tækifæri fyrir fyrirtæki sem tilbúin eru að fjárfesta og byggja upp starfsemi í Rússlandi.

Fleiri áhugaverður markaðir og tækifæri – mikil fjárfesting í hönnunarvinnu!

Auk þess að byggja upp í Rússlandi er unnið að verkefnaöflun á öðrum mörkuðum, þar með talin Ísland, Nýja Sjáland og Bandaríkin. Fulltrúar Nautic og Knarr hafa hitt fjöldann allan af mögulegum viðskiptavinum og Nautic hefur lagt í gríðarlega vinnu og fjárfestingu í þarfagreiningar, hönnun og útfærslu togara og uppsjávarskipa sem henta inná þessa markaði. Meðgangan frá áhuga að verkefni sem greitt er fyrir er löng, nánast undantekningalaust þarf hönnunarstofan að fullhanna fyrirkomulag og útlit, og þar á eftir selja hugmyndina útgerðaraðila í þeirri von að samningar náist um eiginlega smíði og fjárfestingu útgerðarmanna. Nautic er því að byggja upp og skipuleggja umtalsvert safn af vel útfærðum fiskiskipum til framtíðar sem mæta þörfum markaðarins.

Sérstaða Nautic

„Bárðarbungan eða Enduro-Bow er vissulega nokkurskonar vörumerki Nautic í dag. Belgstefnið er niðurtaða áratuga samstarfs Bárðar Hafsteinssonar, stofnanda Skipatækni annarsvegar og hinsvegar Alfreðs Tulinus stofnanda Nautic. Hönnun þeirra félaga sem nú starfa saman hjá Nautic á skipum Brim, FISK og Samherja er landanum þekkt þegar og sitt sýnist hverjum um útlitið en eiginleikar þessara skipa hafa sannað ágæti sitt fyrir löngu fyrir hegðun á hafi úti, aukið notanlegt rými framskips, hagkvæmni í rekstri, og hvað eina sem þarf ekki að tíunda frekar,“ segir Hrafnkell Tulinius framkvæmdastjóri Nautic ehf.

„Það sem minna hefur verið rætt í þessu samhengi hinsvegar er fyrirkomulag og hönnun vinnsludekksins! Vinnsludekk allra þessara skipa er fullkomlega opið svæði, án burðarstoða út um allt millidekk. Kostir þessa eru þeim sem unnið hafa til sjós, eða vinna við hönnun vinnslulína, augljósir. Þetta fyrirkomulag og hönnun veitir gríðarlegt frelsi í hönnun millidekksins og vinnslunnar allrar því rýmið er fullkomlega opið og er haldið uppi með burði að ofan og stenst allar kröfur um burðarþol sem augljóslega þarf að uppfylla. Það eru ekki síður þessi eiginleiki okkar hönnunar sem fellur kaupendum vel í geð – þetta eru okkar aðalsmerki í dag en við erum með fleira í ofninum ef svo má að orði komast,“ segir Hrafnkell.

 

Deila: