Fjöllin eru nakin!

Deila:

„Ferðin suður á Matthildi og Litlabanka skilaði okkur m.a. 15 tonnum af djúpkarfa en það er nánast ördeyða á Eldeyjarboða og Fjöllin eru alveg nakin, ef svo má að orði komast. Til marks um það get ég nefnt að við toguðum þar í fjóra og hálfan tíma og afraksturinn var tvö kör af gullkarfa! Ég held að ég hafi ekki áður séð jafnmikla ördeyðu á Fjöllunum,“ segir Óli Grétar Skarphéðinsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Akurey AK sem landaði í Reykjavík fyrir helgi. Rætt var við hann á vef Brims.

Vertíðarstemninguna vantar
„Það hefur verið gott fiskerí í kantinum á Eldeyjarbankanum en það sama verður ekki sagt um suma staði hér á miðunum út af Reykjanesskaganum. Það er engin vetrarvertíðarstemning í þessu ennþá. Við bíðum eftir því að vertíðin bresti á af fullum þunga,“ segir Óli Grétar.
Akurey landaði 135 tonnum fyrir helgina og var uppistaðan þorskur, gullkarfi, djúpkarfi og ufsi.  Þorskurinn var að jafnaði um fjögur kíló að þyngd.
Óli Grétar segir í viðtalinu að vertíðarkraftinn vanti í veiðina. Stórufsans hafi ekki orðið vart og kraft vanti í þorskgöngurnar upp á grunnin.„Það kom reyndar stutt skot í ufsaveiðina á Tánni á dögunum. Við misstum af því stórufsasýnishorni og bíðum enn eftir að vertíðin bresti á,“ segir Óli Grétar.

Deila: