Þorskkvótinn við Nýfundnaland 10.000 tonn í ár
Í lok nóvember 2017 var haldinn tveggja daga vinnufundur í bænum Gander á Nýfundnalandi þar sem til umfjöllunar var hvernig Nýfundlendingar geti undirbúið sig fyrir auknar þorskveiðar, en væntingar standa til að þorskstofninn muni ná sér á strik aftur á allra næstu árum. Frá þessu er greint á heimasíðu Matís.
Eins og flestir vita varð algjört hrun í Kanadíska þorskstofninum fyrir aldafjórðungi síðan, sem endaði með því að allar þorskveiðar voru bannaðar árið 1992. Fóru þá veiðar úr um 300 þúsund tonnum á ári niður í ekkert, því sem næst yfir nótt. Veiðar úr stofninum höfðu verið enn meiri áratug fyrr, þegar árlegar veiðar fóru upp í 800 þúsund tonn, þegar mest var. Í kjölfarið fylgdu uppsagnir og atvinnuleysistölur sem ekki hafa sést fyrr né síðar á Nýfundnalandi.
Nú er stofninn farinn að sýna merki um að hann sé eitthvað að koma til og eru leyfðar veiðar upp á um 10 þúsund tonn í ár. Það hafa hins vegar orðið litlar breytingar á flotanum og vinnslunni frá því veiðibannið tók gildi og því er greinin alls ekki reiðubúinn fyrir auknar veiðar.
Á vinnufundinum, sem sóttur var af um 200 manns, var fjallað um hvernig best verði staðið að uppbyggingu greinarinnar – eins og fram kemur í titli vinnufundarins sem var „þorskur – uppbygging greinarinnar til framtíðar“ (e. Cod – Building the Fishery of the Future). Meðal annars voru fengnir til sérfræðingar frá Noregi og Íslandi til að kynna stöðu mála í þeirra veiðum, vinnslu og markaðssetningu. Auk þess voru kallaðir til ýmsir sérfræðingar í markaðssetningu og greiningu á mörkuðum, til að gefa góð ráð.
Frá Íslandi voru kallaðir til þeir Ögmundur Knútsson frá Háskólanum á Akureyri, Axel Helgason frá Landssambandi smábátaeigenda og Jónas R. Viðarsson frá Matís. Samhljómur var í þeirra nálgun að Nýfundlendingar þurfi að fjárfesta gífurlega í veiðum og vinnslu til að tryggja rétt gæði og að þeir þurfi ekki að finna upp hjólið þegar komi að því. Íslensk fyrirtæki búi yfir þekkingu og lausnum sem þeir geti nýtt sér. Einnig hvöttu þeir Nýfundlendinga til að líta ekki á aðrar þorskveiðiþjóðir sem samkeppnisaðila, það sé hagur okkar allra að Nýfundlendingar nái að framleiða þorskafurðir í hæstu gæðum og að það muni í raun styrkja og stækka markaðinn fyrir afurðir allra framleiðenda. Muni Nýfundlendingar hins vegar ekki standa undir sinni ábyrgð að framleiða þorskafurðir af réttum gæðum muni það mögulega hafa slæm áhrif á markaðinn fyrir aðrar þorskveiðiþjóðir.
Kynningar og hljóðupptökur frá vinnufundinum eru nú aðgengilegar á http://www.ccfi.ca/workshop/cbff/presentations.asp