Leggja til 6% aukningu á þorskkvótanum

Deila:

Hafrannsóknastofnun leggur nú til hámarksafla í þorski upp á 257.000 tonn, sem er aukning um 6% frá þessu fiskveiðiári. Nú er leyfilegur þorskafli 244.000 tonn. Viðmiðunarstofn er metinn 1.355.700 tonn, sem er 7% meira en í fyrra. Hrygningarstofninn er metinn svipaður að stærð og í fyrra.

Horfur í þorski eru taldar ágætar og gert er ráð fyrir að viðmiðmunarstofn stækki, en árgangur síðasta árs er talinn undir meðallagi.

Ýsukvótinn eykst um 20% og fer í 41.390 tonn úr 34.600 tonnum. Talið er að botni í vexti og viðgangi ýsunnar sé náð.

Ráðlagður heildarafli í ufsa er 60.000, sem er hækkun úr 55.000 tonnum nú.

Ráðgjöf í íslenskri sumargotssíld leiðir til minni afla en verið hefur í áratugi, eða aðeins 39.000 tonn. Skýrist það annars vegar af nýrri 15% aflareglu og hins vegar viðvarandi sýkingu í stofninum.

Ekkert upphafsaflamark er gefið út fyrir vertíðina næsta vetur, eins og var á síðasta ári.

Þetta kemur fram á blaðamanna- og kynningarfundi Hafrannsóknastofnunar, sem nú stendur yfir.

Deila: