Gæslan hlaut Fjörusteininn

Deila:

Landhelgisgæslan var á dögunum sæmd umhverfisverðlaunum Faxaflóahafna, meðal annars fyrir snyrtilega aðkomu í kringum starfsemina í Reykjavíkurhöfn og notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum. Þetta er í ellefta sinn sem verðlaunin eru veitt.

Tilkynnt var um verðlaunin á aðalfundi Faxaflóahafna. Í greinargerð er rifjað upp að Landhelgisgæslan hafi frá upphafi átt heimahöfn í Reykjavíkurhöfn og þar hafi nú aðstöðu varðskipin Þór, Týr og Ægir, auk eftirlits- og sjómælingabátsins Baldurs. Þá er varðskipið Óðinn í Vesturhöfninni en notkun þess lauk árið 2006. Í framhaldi af því færði Landhelgisgæslan Hollvinasamtökum Óðins og Sjóminjasafninu í Reykjavík skipið til varðveislu. Óðinn tók þátt í öllum þremur þorskastríðunum á 20. öld og er nú einn glæsilegasti sýningargripur Sjóminjasafnsins og setur um leið svip á gömlu höfnina.

Í rökstuðningnum segir svo: „Um árabil hafa skip Landhelgisgæslunnar verið tengd rafmagni í viðlegu þeirra í Reykjavík. Landhelgisgæslan var á sínum tíma brautryðjandi í notkun á hitaveituvatni til upphitunar á skipum í höfn. Nokkuð sem fleiri útgerðir hafa tekið upp síðan. Þannig hefur gæslan nýtt endurnýjanlega orku í stað jarðefnaeldsneytis þegar varðskipin eru í heimahöfn. Landhelgisgæslan hefur þannig öðrum til eftirbreytni. Svæðið er ávallt vel hirt, enda mikið lagt upp úr snyrtimennsku í kringum starfstöðvar Landhelgisgæslunnar og vel gengið um hafnarmannvirki. Íslenska fánanum er flaggað við varðskýlið alla daga og er mikil prýði af því. Landhelgisgæsla Íslands er því vel að því komin að hljóta umhverfisverðlaun Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2017.“

Það var Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, sem tók við verðlaunagripnum Fjörusteininum fyrir hönd stofnunarinnar.

 

Deila: